Fangaeyja verði að ferðamannastað

Fangelsið á Maríueyju lokaði og verður því breytt í ferðamannaparadís.
Fangelsið á Maríueyju lokaði og verður því breytt í ferðamannaparadís. AFP

Stjórnvöld í Mexíkó hafa ákveðið að loka fangelsi á Maríueyjum við Kyrrahafsströnd landsins. Stendur til að gera eyjuna að ferðamannaparadís en eyjan er þekkt fyrir fjölbreytt plöntu- og dýralíf og er á heimsminjaskrá UNESCO.

Á eyjunni hefur fangelsi verið starfrækt síðan 1905 og hafa alls 64 þúsund afplánað á eyjunni. Síðustu fangarnir voru færðir af eyjunni til meginlands Mexíkó í mars. Þeir sem áttu eftir að afplána stuttan tíma var sleppt lausum en aðrir fengu inni í fangelsi á meginlandinu.

Forsetinn Andres Manuel Lopez Obrador tók þá ákvörðun í febrúar að loka fangelsinu og sagði þá að eyjan fallega ætti ekki að vera minnisvarði um pyntingar og frelsissviptingu. 

Fangelsinu verður breytt í Jose Revueltas menningarmiðstöðina og heitir hún eftir mexíkóska rithöfundinum og pólitíska aðgerðarsinnanum sem sat inni á eyjunni tvisvar sinnum á fjórða áratug síðustu aldar. 

Eyjan er 130 kílómetra frá meginlandi Mexíkó og er heimili með annars pelíkana, páfagauka og iguana-eðla.

Forsetinn Andres Manuel Lopez Obrador heimsótti fangelsið hinn 9. apríl …
Forsetinn Andres Manuel Lopez Obrador heimsótti fangelsið hinn 9. apríl og tilkynnti að þar yrði opnuð menningarmiðstöð. AFP

Gott fangelsi og fáir reyndu að flýja

Fangelsið hefur gott orðspor, af fangelsi að vera. Þar eru bæði öryggisfangelsi og fangelsi fyrir fanga sem ekki voru skilgreindir sem mjög hættulegir. 

Þeir sem ekki voru skilgreindir sem mjög hættulegir bjuggu átta saman í húsi með rúmum og engum hurðum fyrir baðherbergjunum. Þeir höfðu aðgengi að náttúrunni, líkamsræktin var undir berum himni, og gátu þeir unnið úti í náttúrunni, á smíðaverkstæði og farið í tónlistartíma. 

Í öryggisfangelsinu voru hefðbundnari fangaklefar með rimlum, tveimur rúmum og klósetti inni á klefanum. Alls voru 137 fangar hýstir þar fyrir lokun. 

Fangelsið lítur í dag frekar út eins og draugabær. Náttúran hefur einnig sett mark sitt á staðinn en fellibylurinn Willa fór þar yfir haustið 2018 og skemmdi mikið. 

Á þeim rúmu hundrað árum sem fangelsið var starfrækt reyndu fáir að fljýja. Þeir sem reyndu það enduðu á að ganga eyjuna þvera og endilanga í leit að mat þar til þeim var náð aftur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert