Margir eru farnir að eyða öllum samfélagsmiðlum úr símunum sínum áður en þeir fara í ferðalög. Ástæðan ku vera sú að þannig nær maður meiri slökun og fær meira út úr fríinu. Minni tími fer í að reyna að ná réttu ljósmyndinni og meiri tími fer í að lifa í núinu.
„Þetta var erfitt í fyrstu. Höndin mín leitaði stöðugt eftir símanum og fingurnir leituðu að staðnum þar sem samfélags-öppin voru áður til staðar, segir ritstjóri vefritsins The Everygirl sem lét á þetta reyna.
„Áður hafði ég alltaf nýtt tímann meðan kærastinn var í sturtu til þess að fara í gegnum myndir dagsins og velja hina einu réttu fyrir samfélagsmiðla og fylgjast með hvað allir aðrir voru að gera heima. En eftir sirka tvo daga var ég farin að lesa bækurnar sem ég hafði tekið með mér í ferðalagið. Í stað þess að bíða eftir að kærastinn var búinn í sturtu þá ákvað ég að fara með honum í sturtu! Ég fór smám saman að verja minni tíma uppi á hótelherbergi og meiri tíma úti að njóta lífsins,”
„Þá fór minni tími í að ná réttu myndinni. Áður var ég endalaust að reyna að ná rétta sjónarhorninu sem myndi líta vel út á Instagram. Nú spáði ég minna í það og naut þess bara að horfa á landslagið. Ég hætti þó ekki að taka myndir en pressan var engin og ég var ekkert að spá í því hvort ég væri asnaleg á sundfötunum, að borða morgunmat með engan farða og svo framvegis. Myndirnar sem við tókum hefðu ekki endað á Instagram en þetta voru okkar myndir og þær náðu utan um ferðalagið og hver við erum dagsdaglega. Við vorum ekki að látast og ekki að reyna að vera eitthvað sem við erum ekki.”
„Þessi tilraun fékk mig til þess að átta mig á að ég þarf ekki að vera með flottustu Instagram myndirnar. Ég og kærastinn minn höfum unnið hörðum höndum til að hafa efni á fríunum okkar og ég er ekki að fara að fljúga hnöttinn á enda bara til þess að finnast mínar myndir ekki nógu góðar fyrir Instagram. Sannleikurinn er sá að það er alltaf einhver þarna úti sem er með betri myndir en maður sjálfur. En þú þarft ekki að nota fríið þitt til þess að reyna að slá þeim við.“
„Þegar við hættum á samfélagsmiðlum vorum við meira til staðar fyrir hvort annað. Það hefði verið asnalegt að vera sífellt að setja inn myndir af okkur í fríinu, að sýnast fyrir umheiminum þegar við áttum bara að vera til staðar fyrir hvort annað. Við áttum mun fleiri gæðastundir en ef við hefðum alltaf verið í símanum.“
„Við áttuðum okkur samt á því að það var allt í lagi að deila myndum þegar heim var komið. Margir höfðu einlægan áhuga á ferðalaginu og vildu vita meira. Sérstaklega fjölskyldan okkar.“
„Fríin okkar eiga að vera frí frá hversdagsleikanum, frá vinnu og því sem veldur okkur streitu. Fram að þessu ferðalagi fannst mér ég vera of mikið á samfélagsmiðlum. Þetta tíu daga frí frá samfélagsmiðlum varð til þess að ég áttaði mig á að ég hef ekki eins gaman að þeim og áður. Í kjölfarið fór ég þá að nýta tímann minn meira í það sem ég raunverulega hafði gaman af.“