Sædís Kolbrún Steinsdóttir vinnur við að ferðast um landið og veit hvar bestu hótelin, girnilegasti maturinn og fallegasta landslagið er á Íslandi. Best finnst henni þó að vera uppi í bústað með fjölskyldunni en þar ætlar hún að verja páskunum.
Útivist, fámennir staðir og spennandi matur er drifkrafturinn að ferðalögum innanlands,“ segir Sædís sem er í draumastarfi þeirra sem elska að ferðast. Hún starfar sem „Director of Operations“ hjá Discover Truenorth og felst meðal annars í starfinu að prufukeyra flesta afþreyingu og gistingu sem hún kynnir síðan fyrir viðskiptavinum. „Mér finnst skemmtilegast að ferðast sem lengst frá höfuðborginni þegar ég fer í persónuleg ferðalög. Fara í fjallgöngur með fjölskyldu og ferðavinum og njóta kvöldsins yfir góðum grillmat við varðeld.“
Ferðabakterían er í fjölskyldunni.
„Foreldrar mínir voru mjög dugleg að ferðast innanlands þegar ég var yngri og þá var ávallt farið í spennandi göngur og fjarlægir staðir eltir uppi þar sem við vorum oft bara ein á ferð. Við gistum í tjaldi, útbjuggum nesti, eggjasamlokur og heitt kakó fyrir dagsferðir og svo var grillað á kvöldin. Þetta var algjör draumur. Vatnasport hefur bæst við flóruna hjá fjölskyldunni. Systir mín er menntuð sem leiðsögumaður með sérstaka áherslu á erfið ferðalög á jökla, flúðasiglingar og leiðangra þar sem farið er í þurrgöllum í vatnaævintýri inn í gljúfur með það að markmiði að komast að fossum sem fæstir fá tækifæri til þess að sjá. Í slíkum ferðum þarf að vaða, synda, klifra og dýfa sér í vatnssvelgi og svo flýtur maður niður með ánni á leiðinni til baka eftir að fossinn er fundinn.“
Sædís er alltaf með skemmtileg ferðalög á prjónunum en um páskana fer hún alltaf á sama staðinn; upp í sumarbústað með fjölskyldunni.
„Páskarnir eru alltaf haldnir uppi í sumarbústað með fjölskyldunni og þá er yfirleitt farið í fyrstu göngu sumarsins. Þá er gengið upp á topp á fjallinu á bak við bústaðinn, skálað í bjór og svo rennum við okkur á rassinum niður snæviþaktar fjallshlíðarnar,“ segir Sædís.
„Þegar kórónuveirufaraldurinn hófst og fjölskyldan fór ekkert í ferðalög erlendis kom ég af stað nýrri hefð sem fer fram alla páska uppi í sumarbústað og er á þriðja ári í ár. Þetta er heilsdagsviðburður þar sem fjögur lönd eru kynnt; eitt af hverju heimili,“ segir Sædís en þar á hún við sig, foreldra sína, bróður sinn og kærustu hans og systur sína og kærasta hennar.
„Hvert land þarf að kynna með mat, drykk, tónlist og spurningakeppni. Fyrsta árið tókum við fyrir Belgíu, Mexíkó, Ítalíu og Frakkland. Seinna árið kynntum við Andalúsíu, Líbanon, Pólland og Kúbu og í ár verða kynnt Tenerife, Japan, Kína og Kanada. Hvert heimili leggur mikinn metnað í viðburðinn og hef ég heimildir fyrir því að prufueldhús séu nú starfrækt á hverju heimili fyrir sig þar sem fólk er að æfa uppskriftir að mat og drykk fyrir páskana.“
Hvaða ferðalag er eftirminnilegasta ferðalag sem þú hefur farið í?
„Ég á svo sterkar minningar frá barnæsku að ganga í Skaftafelli, vaðandi ár til þess að komast á áfangastað og það hefur alltaf staðið upp úr hjá mér þegar við gengum inn Fjaðrárgljúfur með hópi fólks. Á þeim tíma, fyrir 25 árum, var Fjaðrárgljúfur ekki á allra vitorði eins og núna og okkar ferð var með öðru sniði en þeirra sem virða gljúfrið fyrir sér í dag. Við óðum ána upp að hnjám átta sinnum til þess að komast inn gilið og að fossinum við endann. Einnig stóð mamma mín fyrir göngu að Stórurð við Borgarfjörð eystri fyrir örfáum árum sem ég gleymi aldrei. Stórurð er með fallegri stöðum landsins og skemmtileg dagsganga að þessari náttúruparadís.
Eftirlætisferðalagið mitt erlendis er þegar ég ferðaðist til Guilin í Yangs-huo-héraði í Kína á meðan ég bjó í Sjanghaí. Ég mætti á hótelið eftir sólsetur í grenjandi rigningu og sá hreinlega ekkert fyrr en ég vaknaði daginn eftir og ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég dró frá glugganum á litla sveitahótelinu sem ég var á. Ég hafði aldrei komið á eins framandi stað þrátt fyrir ferðalög mín vítt og breitt um Kína. Ég fór einnig i fjallaskíða- og veiðiferð til Grænlands sem var gjörólík öllum þeim ferðum sem ég hef farið í. Erfið, öðruvísi, fræðandi og þar af leiðandi stórskemmtileg ferð.“
Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?
„Ætli þeir séu ekki nokkrir. Hef sérstaklega gaman af því að fara inn í Þórsmörk. Það virðist alltaf vera gott veður þar þó svo að það sé vont veður – það er hugarfarið sem ræður ríkjum þegar þangað er komið. Gróðursæld, nóg af gönguleiðum, jöklar og fjölbreytt landslag gerir þetta svo einstakan stað.
Flatey á Breiðafirði er alltaf í uppáhaldi sem og Borgarfjörður eystri á Austurlandi. Bæði Flatey og Borgarfjörður eystri eiga það sameiginlegt að það hægir á hjartslættinum og þarna ríkir ekkert nema friður og ró fyrir utan kannski kríurnar í Flatey en þær eiga heima þarna frekar en ég þannig að ég kvarta ekki.“
En erlendis?
„Positano á Ítalíu er í uppáhaldi og þá sérstaklega litli leynistaðurinn minn þar, Da Adolfo. Ef þið ferðist einhvern tímann til Positano þá mæli ég með að gera sér ferð þangað. Það eru aðeins tvær leiðir til þess að komast á Da Adolfo: Annars vegar klukkutíma ganga upp og niður brekkur og sú gönguleið er alls ekki vel merkt. Hins vegar að ná báta-taxanum um morguninn og svo til baka seinnipartinn. Það er lítill sjávarréttastaður á ströndinni og sólbekkir fyrir framan en sökum þess hvað það er erfitt að komast að þessum stað er fátt um fólk en afar góðmennt. Það fer lítið fyrir þessum litla stað, engir stælar eða flottheit en róleg og ljúf ítölsk stemning. Svo finnst mér æðislegt að gista í Santa Margherita Ligure á Ítalíu og ganga yfir til Portofino. Falleg ganga, gaman að stoppa á leiðinni og fá sér drykk og enda svo í kvöldverð í Portofino.“
Hvað má alls ekki láta fram hjá sér fara á Íslandi?
„Glym í Hvalfirði, auðveld dagsferð frá Reykjavík en ágætlega krefjandi ganga fyrir óvana. Fyrir þá sem eru á ferðinni á þessu svæði en leggja ekki í Glym þá er lítil laut og fallegur klettafoss á vinstri hönd þegar keyrt er inn afleggjarann frá Hvalfjarðarvegi. Fullkominn fyrir fjölskyldur og vini til þess að fara í lautarferð. Ég hef farið þangað með vinum og fjölskyldu í bíltúr þar sem við höfum tekið með okkur nesti og vatnsbyssur fyrir krakkana og leikið okkur fram eftir degi. Mjög fallegur staður í lítilli fjarlægð frá Reykjavík.
Mér finnst að allir ættu að heimsækja Flatey á Breiðafirði og stoppa í dag eða svo í Stykkishólmi á undan eða eftir. Það er hægt að taka ferjuna Baldur yfir á Vestfirði með stoppi í Flatey og láta bílinn flakka með alla leið ef fólk hefur nokkra daga. Maturinn á Tjöruhúsinu á Ísafirði, Norð-Austur Sushi Bar á Seyðisfirði og á Voga-fjósi á Mývatni er vel þess virði að kíkja í heimsókn.“
Skipuleggur þú ferðalög langt fram í tímann eða tekurðu skyndiákvarðanir?
„Ég skipulegg yfirleitt með litlum fyrirvara. Það fer mikið eftir vinnu hjá mér hvenær ég kemst þannig að þegar ég sé tækifæri til þess að stökkva þá er ég farin í flug til útlanda eða bíltúr út á land.“
Þrátt fyrir að taka oft skyndiákvarðanir er Sædís búin að skipuleggja sumarið vel. „Ég er að fara til New York í maí og svo til Kaliforníu í þrjár vikur eftir það. Planið er að slappa af, borða góðan mat og heimsækja vini. Ég er búin að leigja húsbíl í viku sem ég ætla að ferðast í á tónlistarhátíð í Kaliforníu. Ég er einnig að fara til Miami í júní í viðskiptaferð og mögulega Mexíkó í september.“
Hvað væri draumaferðalagið þitt?
„Mig dreymir um að heimsækja Ástralíu. Ég hef ferðast svo mikið um Asíu og Evrópu og ágætlega mikið um Ameríku en ég á Eyjaálfuna ásamt Afríku eftir.“