Tískuritstjóri lærir að pakka

Það er frelsandi að ferðast létt og þurfa ekki að …
Það er frelsandi að ferðast létt og þurfa ekki að draga níðþunga tösku á eftir sér. Unsplash.com/Elaine Tu

Það getur verið þrautin þyngri að reyna að pakka bara því sem maður þarf fyrir ferðalag. Oft á tíðum fyllist maður valkvíða og ótta um að vera kominn á áfangastað og vera svo ekki með nógu mikið af fötum til skiptanna. Tískuritstjóri vefrits setti sér þá áskorun fyrir næsta ferðalag að vera bara með handfarangur. Það tókst en krafðist mikils undirbúnings og íhugunar.

„Sem tískuritstjóri get ég fullyrt að ég elska föt og á mjög mikið af fötum. Þessi ástríða mín fyrir fötum hefur leitt til þess að ég pakka alltaf of miklu þegar ég þarf að ferðast. Stundum geri ég ráð fyrir að skipta um föt þrisvar sinnum á dag og pakka samkvæmt því. Loks ákvað ég að þetta gengi ekki til frambúðar, ég yrði að finna leið til þess að ferðast léttar. Ég ákvað því að skora mig á hólm og ferðast næst aðeins með handfarangur,“ segir Madeline Galassi.

„Ég þurfti að leita leiðar til þess að pakka án þess þó að fórna tískuvitinu. Ég þurfti því til dæmis að sleppa því að taka með skærbleiku buxurnar sem ég myndi bara klæðast einu sinni, og taka í staðinn með buxur sem myndu ganga við fleiri tækifæri.“

„Ég ákvað því að þróa kerfi sem gekk út á það að hafa nokkrar flíkur sem hægt væri að para saman á fjölbreyttan hátt. Ég hélt mig við hlutlausa litapallettu sem samanstóð af hvítum, brúnum og bláum flíkum.“

Þetta er það sem fór í handfarangurstöskuna:

  • 4 skyrtur (hvít skyrta, blár toppur, hlýrabolur,)
  • 2 buxur (gallabuxur og hvítar víðar buxur)
  • Stuttbuxur
  • Jakki (í hlutlausum lit sem gengur við allt, t.d. hvítur eða brúnn)
  • Kjóll
  • 2 töskur (spari og hversdags)
  • Sólgleraugu
  • 3 skópör (hvítir strigaskór, spariskór, sandalar)

Hafa ber í huga:

Hvít skyrta og gallabuxur geta bæði virkað vel á daginn sem og á kvöldin. Það er hægt að fríska upp á klæðnaðinn fyrir kvöldviðburði með flottum eyrnalokkum og hælaskó.

Einn vandaður sumarkjóll tekur ekki mikið pláss í farangrinum en getur gengið vel við ýmis ólík tækifæri.

Skemmtilegir fylgihlutir eins og eyrnalokkar, hálsmen, belti og hárbönd taka lítið pláss en geta gjörbreytt heildarútliti klæðnaðarins. 

Það er hægt að pakka þvottadufti í litla krukku og með tannbursta að vopni er hægt að þrífa bletti í fötunum ef það skyldi eitthvað slettast á mann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert