Í meira en áratug hafa mágkonurnar Ingunn Ásta Egilsdóttir og Elín Kristjánsdóttir rekið veitingastaðinn Naustið á Húsavík. Naustið hefur á þessum árum orðið hornsteinn í samfélaginu og það er sannur vorboði þegar Naustið opnar á ári hverju.
Naustið opnaði fyrst á gamalli kaffistofu við höfnina en varð að einum vinsælasta veitingastað bæjarins áður en langt var um liðið. Hann stækkaði og dafnaði og árið 2016 flutti hann í nýtt húsnæði, húsið Sel, inni í bænum.
Hugmyndin að Naustinu fæddist eftir efnahagshrunið árið 2008. Þá hafði Ingunni, sem alltaf er kölluð Inga, verið sagt upp störfum á auglýsingastofu í höfuðborginni og stóð hún þá á tímamótum. Elín, sem alltaf er kölluð Ella, stóð einnig á tímamótum og hugsaði með sér að nú væri kominn tími til að gera eitthvað nýtt.
„Við vorum búin að tala um þetta í mörg ár. Grínuðumst alltaf með að Helgi [eiginmaður Ellu] væri sægreifinn. Svo kemur kreppan og ég missi vinnuna einn tveir og,“ segir Inga í samtali við mbl.is. Úr varð að fjölskyldurnar opnuðu veitingastað á kaffistofunni við höfnina. Inga er gift Jóhanni, sem alltaf er kallaður Issi, en hann er bróðir Ellu.
„Við ætluðum fyrst bara að vera svona súpueldhús með lúgu. En svo var lúguglugginn svo dýr að við höfðum ekki efni á að kaupa hann. Þannig við settum bara nokkur borð og stóla. Þetta var náttúrulega bara kaffistofa og skrifstofur,“ segir Inga.
Veitingastaðurinn var áður kaffistofa sem Kristján Ásgeirsson, faðir Helga, og aðrir heldri menn bæjarins hittust á. Þeim gömlu var ekki bolað út og héldu þeir áfram að sækja hana þó veitingastaðurinn hafi opnað. „Við vorum bara í farsælu samstarfi við þá, kallana hans Kidda. Þeir komu alltaf á morgnana og sögðu okkur allar sögurnar og fengu sér kaffi. Síðan voru þeir alltaf farnir svona um hálf tólf,“ segir Inga.
„Þeir eru nú margir fallnir frá en þetta var bara algjört smábæjarlíf í hnotskurn,“ segir Inga.
Það má með sanni segja að allir í fjölskyldunni hafi komið að veitingastaðnum á einhverjum tímapunkti í gegnum árin. Börn Ingu og Ellu hafa unnið í eldhúsinu, við uppvask og við að þjóna auk þess að dytta að og smíða innréttingar eða annað sem þurfti.
Naustið hefur venjulega aðeins verið opið yfir sumarið en veitingastaðurinn fylgir sama takti og hvalaskoðunin. Tímabilið í hvalaskoðun og veitingastaðarekstri hefur þó lengst í báða enda sumarsins og nú opnaði Naustið í byrjun apríl.
Haustið 2015 sá fyrir endann á rekstri Naustsins þegar gamla kaffistofan var seld og þurftu þær Inga og Ella að fara á stúfana eftir húsnæði sem hentaði veitingastaðarekstri.
„Þá þurfti að taka ákvörðun. Ætlum við að hætta, eða ætlum við kaupa hús? Og þá var líka spurningin hvaða hús? Það er ekki eins og það sé veitingastaðahúsnæði á hverju strái á Húsavík“
„Svo var þetta hús hérna sem enginn hafði búið í í 10 ár og börnin í bænum héldu að væru draugahús,“ segir Inga. Þær festu kaup á húsinu Sel sem stendur á horni Ásgarðsvegs og Garðarsbrautar í hjarta bæjarins.
Húsið var byggt á árunum 1928 og 1929 og þarfnaðist mikillar ástar áður en það gat orðið að veitingastað. Með mikilli vinnu, sem fól meðal annars í sér að moka 70 tonnum af mold og grjóti út úr kjallaranum til að ná betri lofthæð, og taka niður nokkra veggi tókst það.
Húsið er svokallað katalóghús, en það voru þau hús sem voru pöntuð eftir pöntunarlista frá Noregi og síðan voru viðir þeirra fluttir hingað til lands tilhöggnir. Því má sjá mörg svipuð hús víða um Ísland, en hvert þeirra hefur þó sína sál.
„Það var hreinlega bara keypt í kaupfélaginu [Kaupfélagi Þingeyinga]. Þegar við fórum að rífa innan úr því þá sáum við að á sumum spýtunum voru merkingar. Þetta var bara eins og legó,“ segir Inga og bætir við að smiðirnir sem sáu um endurbætur á húsinu, sem eru fyrir tilviljun faðir og föðurbróðir blaðamanns, hafi hreinlega strokið spýtunum úr hrifningu.
„Þetta hús er bara með einhvern anda. Það er bara svo gott að vera hérna. Við segjum að það sé góður vínandi í húsinu, því þau sem bjuggu hér áður, þeim þótti gott að súpa dálítið,“ segir Inga.
„Stundum byrja glösin á fæti, sem hanga niður, þau byrja að klingja. Og það er ekki af því það er grafa að keyra fram hjá eða jarðskjálfti. Við höfum staðið hérna við barinn og þau byrja að klingja og það er ekkert annað að gerast. Þá vitum við að það er einhver þyrstur í húsinu og við setjum bjór í glas og skiljum eftir á barnum,“ segir Inga.
Sel á sér langa sögu, þar hafa margar fjölskyldur búið og þar var líka fyrsta baðkarið á Húsavík og fengu þær baðkarið með húsinu þegar þær keyptu. Stendur það nú fyrir utan húsið, blómum skreytt á sumrin. „Sýslumaðurinn kom til að fara í bað, svona fyrir jólin og önnur tilefni,“ segir Inga.
„Í einu herberginu, sem er skrifstofan mín, þar var Sparisjóður Húsavíkur rekinn um tíma. Þar var líka hárgreiðslustofa og saumastofa. Þegar ég var að hreinsa upp úr gólfinu, þá var ég ekki að skilja af hverju það var svona mikið af hárspennum, þá heyrði ég söguna af hárgreiðslustofunni.“
Inga fær listræna útrás í því að skreyta staðinn og gera hann fínann. „Það breyttist svo mikið þegar við fórum úr gamla húsinu. Það var bara villta vestrið, þú gast gert allt. Þegar þú kemur í svona hús, þá er ákveðin virðing í því. Maður fer ekki alveg í sama gírinn í svona húsi. Konseptið var að þú værir kominn heim til ömmu, það væri notalegt og þér liði vel,“ segir Inga.
Við breytingar á húsinu reyndu þær að gera sem minnst, svo hægt væri að breyta því aftur þegar sólin væri sest hjá Naustinu.
„Við tókum bara nauðsynlegustu veggi, við urðum náttúrulega að taka baðkarið og baðherbergið uppi. Mottóið var alltaf að breyta sem minnstu, svo þér líði eins og þú værir kominn heim til einhvers,“ segir Inga.
Með mikilli útsjónarsemi þeirra Ingu og Ellu stóð Naustið af sér faraldurinn. „Við reyndum allt. Við seldum pítsudeig, útbjuggum fiskrétti sem fólk gat tekið með sér heim, opnuðum Plan B [matarvagn fyrir utan húsið] og gerðum það sem við ætluðum aldrei að gera, keyptum djúpsteikingarpott og buðum upp á franskar,“ segir Inga. Hún þakkar ekki síst samtakamætti samfélagsins, allir stóðu saman og versluðu við veitingastaði bæjarins af miklum móð til að halda þeim í rekstri.
Ástæðan fyrir steikingarpottinum er að Íslendingar verða að fá franskarnar sínar og kokteilsósuna sína. „Það sem gerðist í faraldrinum er náttúrulega að Íslendingar fóru að ferðast innanlands,“ segir Inga. Þá fóru þau að bjóða upp á fisk og franskar og hamborgar og franskar. Þrátt fyrir að hafa aldrei ætlað að kaupa djúpsteikingarpott hefur það reynst vel, sem og svo margar nýjungar sem þær tóku inn í faraldrinum.
Á Naustinu hefur alltaf verið lagt ríka áherslu á að gera matinn frá grunni og að nýta hráefni úr heimabyggð. Þannig er fiskurinn úr Skjálfandaflóa, silungurinn úr Mývatni eða Kálfborgarárvatni í Bárðardal, grænmetið af Hveravöllum og kjötið frá bændum úr nærliggjandi dölum „Við kaupum ekki einu sinni kokteilsósuna. Við búum til mæjóið og það er vegan. Það kemur ekkert hingað frosið tilbúið og sett á disk,“ segir Inga.
Inga og Ella eru hvor sínu megin við sextugsaldurinn og hafa staðið í brúnni í meira en áratug. „Þetta er nú að verða ágætt hjá tveimur fullorðnum konum. En auðvitað vill maður sjá haldið áfram með það sem maður hefur unnið að. Það er líka alltaf tími fyrir breytingar. Ég meina þó að eitthvað sé gamalt og hafi gengið vel, þá þýðir það ekki að það sé eilíft,“ segir Inga.
Þær hafa sett bæði reksturinn og húsið á sölu, en hafa ekki enn fengið kaupanda þó nokkrir hafi verið áhugasamir. Helst vildu þær sjá reksturinn halda áfram í húsinu, en sem fyrr segir, húsinu var breytt varlega og með það í huga að hægt væri að breyta því aftur í hvað sem er.
Naustið mun hins vegar vera opið fram á haust á Húsavík og tekur Inga brosandi á móti hverjum gesti eins og henni einni er lagið.