Áslaug Inga Kristinsdóttir er mikil ævintýrakona og er alltaf með augun opin fyrir ferðalögum sem færa hana á ævintýraslóðir. Fyrir nokkrum árum fór hún á siglinganámskeið á vegum Siglingaskólans í Reykjavík en á námskeiðinu sigldu þau á skútu til Færeyja. Áslaug segir að ferðin hafi verið friðsamleg og falleg og því lengra út á haf sem þau sigldu hafi hún fyllst af innri ró. Hún segir Færeyjar dásamlegar og mælir með ferðalögum þangað.
Af hverju ákvaðst þú að fara á siglinganámskeið?
„Ég hef lengi verið heilluð af hafinu og synt víða í sjónum, meðal annars frá Nauthólsvík til Bessastaða á árum áður. Árið 2014 kláraði ég bóklegt siglingapróf í Tækniskólanum og kynntist fljótlega síðar grunnatriðum siglinga með verklegu námskeiði hjá Brokey. Ævintýraþráin hefur hins vegar alltaf verið sterk hjá mér og þegar ég sá auglýsingu um skútusiglinganámskeið til Færeyja á vegum Siglingaskólans í Reykjavík þá var ég ekki lengi að hugsa mig um.“
Hvernig var ferðalagið til Færeyja?
„Ferðin var mikið ævintýri. Við sigldum á fallegri 50 feta Bavaria skútu og komum við í Keflavík og Vestmannaeyjum á leiðinni. Í Eyjum skelltum við okkur í sund og versluðum mat fyrir áframhaldið. Það var sólríkur dagur og virkilega góð heimsókn. Eftir því sem við héldum lengra út á haf fylltist ég af innri kyrrð. Að sjá regnboga úti á hafi og fylgjast með sólarupprásinni á hverri nóttu var dásamlegt. Það var eitthvað magnað við að sjá hafið spegilslétt með himininn baðaðan í ljósfjólubláum og bleikum litum. Að sjá glitta í forvitna hvali og taka eftir höfrungum syndandi og stökkvandi við skutinn er sömuleiðis ógleymanleg reynsla. Einnig var gott að fá hvíld frá netnotkun og spjalla við félagana um borð. Kennararnir voru líka algjörir snillingar. Svo var dásamlegt að sjá í land við komuna til Færeyja, sjá kindurnar í hlíðunum og konunglegu klettabjörgin við sjóinn.“
Hvernig var að ferðast um Færeyjar?
„Það var gott að ferðast um í Færeyjum og fólkið er vingjarnlegt. Fyrsti viðkomustaður okkar í Færeyjum var í Vestmanna. Þar tóku á móti okkur hressir menn við hafnarminnið sem buðu okkur upp á grillað hvalkjöt. Ég afþakkaði þó boðið. Stuttu síðar héldum við til Nólseyjar. Þar eru húsin mörg hver afar skrautleg og í ólíkum litum. Þessi staður var í miklu uppáhaldi hjá mér í ferðinni. Það sem vakti eftirtekt mína þar sérstaklega var lamadýr sem spókaði um í einum garðinum. Kirkjubær var einnig heimsóttur. Það var virkilega áhugavert að sjá þetta aldagamla þorp sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Ég man eftir að í kirkjunni voru myndir af sjómönnum. Eflaust hafa margir beðið fyrir því að þeir myndu skila sér heim heilir á höldnu.
Eftir komuna til Þórshafnar bauð liðlegur maður mér gistingu í hjólhýsi og hvatti mig til að skrifa. Hann keyrði mig líka aðeins um og heimsóttum við fagurt, gamalt þorp sem nefnist Saksun. Þegar ég kom þangað leið mér eins og vera komin margar aldir aftur í tímann og útsýnið af firðinum var ægifagurt þrátt fyrir skýjahulu, en hún gerði upplifunina einungis dulspekilegri.“
Mælir þú með að fólk geri sér ferð til Færeyja?
„Já, tvímælalaust! Ég mæli með því að landsmenn líti við í heimsókn til nágranna okkar í Færeyjum. Það er gaman að sjá hvað við eigum sameiginlegt og hvað skilur okkur að. Það er áhugavert að kynnast menningu þeirra, tónlist og skoða náttúruperlurnar. Færeyjar eru pínu framandi í mínum huga.“
Hvernig ferðalögum ert þú almennt hrifnust af?
„Almennt er ég hrifnust af ferðalögum þar sem ég læri eitthvað nýtt í leiðinni. Einnig er ég meira fyrir að dvelja í fámennum þorpum eða bæjum heldur en í stórborgum. Fyrir nokkrum árum sótti ég danshelgi í náttúruparadís fyrir utan Stokkhólm þar sem ég sótti dansæfingar á daginn við blues tónlist og á kvöldin voru haldin dansböll. Þess á milli synti ég í köldu stöðuvatni og fór í sánu á eftir. Nýlega ferðaðist ég líka til Lettlands þar sem ég sótti námskeið á vegum Erasmus+. Þar köfuðum við ofan í okkur sjálf, tengdust náttúrunni með dýpri hætti og fundum út hver okkar næstu skref væru í lífinu.“
Hvað er ómissandi á ferðalaginu?
„Mér finnst gagnlegt að læra örfá orð í tungumálinu í landinu sem er heimsótt, eins og t.d. góðan dag og takk fyrir. Þegar ég hef ferðast ein, sem ég hef gert nokkuð af, þá leitast ég við að kynnast fólkinu á heimaslóðum. Mér finnst ágætt að koma við á notalegu kaffihúsi og spjalla við starfsfólkið, athuga hvort það geti mælt með einhverjum skemmtilegum stöðum til að heimsækja. Einnig er ég í hópi þar sem er einn fulltrúi frá hverju landi í heiminum, með það að markmiði að styrkja vináttubönd um heiminn. Ég hef hitt fulltrúa frá nokkrum löndum, sem hefur gert ferðalagið enn áhugaverðara.“
Hvaða ferðalög eru á dagskrá hjá þér í sumar?
„Stefnan er að vera dugleg að fara í útilegur. Mig langar til að heimsækja Strandir á Vestfjörðum, en þessi landshluti á stóran sess í hjarta mínu eftir að hafa ferðast þar um á puttanum þegar ég var á menntaskólaaldri. Einnig er Ítalíuferð á dagskrá með fjölskyldunni. Ég hlakka til að bragða á ítölskum mat og ganga um í sveitinni. Einn af mínu mörgu draumum er líka að prófa að gista á svokölluðu „boutique“ hóteli. Þessi hótel eru yfirleitt með fá herbergi, bjóða upp á persónulega þjónustu og búa yfir listrænu ívafi. Aldrei að vita nema ég láti það eftir mér í sumar að dvelja á slíku hóteli!“