Á sunnudag, 1. maí, mun Hong Kong opna landamæri sín fyrir erlendum ferðamönnum í fyrsta skipti í meira en tvö ár. Koma erlendra ferðamanna er háð skilyrðum því aðeins fullbólusettir ferðamenn mega koma til landsins.
Hong Kong hefur meira og minna verið lokuð fyrir þeim sem ekki eru búsettir í borginni síðan 25. mars árið 2020 vegna heimsfaraldursins.
Einnig hefur verið slakað á flugreglum sem hafa verið í gildi síðustu mánuði. Þá máttu flugvélar ekki fljúga til borgarinnar frá ákveðnum áfangastöðum ef alls þrír farþegar greindust smitaðir um borð við komu til landsins. Frá og með 1. maí mega alls fimm farþegar vera smitaðir og vélar frá áfangastaðnum ekki koma næstu fimm daga.
Þessi regla hefur gert flugfélögum og farþegum erfitt fyrir að skipuleggja ferðir til Hong Kong. Þegar þetta er skrifað mega vélar frá tíu áfangastöðum ekki fljúga til Hong Kong.