Fimm ferðaráð fyrir foreldra ungbarna

Þreytt foreldri að ferðast.
Þreytt foreldri að ferðast. Colourbox

Það getur verið vandasamt að ferðast með ungabörn. Langar flugferðir geta oft reynst þeim sérlega erfiðar. Ferðalög geta valdið foreldrum mikilli streitu. Gott skipulag getur komið í veg fyrir að ungabörn verði þreytt og svöng með þeim afleiðingum að foreldrum fallist hendur í miðju flugi yfir organdi barninu.

Uppeldisfræðingurinn Sophie Pickles gefur foreldrum ungbarna góð ráð þegar ferðalög eru á dagskrá, en miðað við aukna eftirspurn í flugsamgöngum víðs vegar um heim má segja að jarðarbúar séu á faraldsfæti um þessar mundir. 

1. Í fyrsta lagi er ekki óvitlaust að reyna eftir bestu getu að bóka flug yfir þann tíma sem er í samræmi við svefnrútínu barnsins. Sé barnið vant að sofa á ákveðnum tíma dags eru góðar líkur á að það haldi í þann tíma, hvort sem það er um borð í flugvél eða ekki.

2. Bókið sæti fyrir ykkur í sitthvorri sætaröðinni, sérstaklega ef löng flugferð er í kortunum. Ef þið sitjið hvort í sínu sæti getið þið skipst á að annast barnið í fluginu á milli þess sem þið nærist og hvílist. 

3. Hafið móðurmjólk, ungbarnablöndu eða aðra næringu sem barnið er vant að fá, tilbúna í handfarangri. Hægt er að nálgast heitt vatn um borð í flestum flugvélum og því er lítið mál að fá að hita upp pela, mauk eða graut um borð fyrir barnið. 

4. Reynið að gefa barninu brjóst eða pela við flugtak og lendingu. Börn eru gjörn á að fá hellu fyrir eyrun við breytt loftþrýstingsskilyrði sem getur skapað óþægindi og pirring. Að dreypa á brjósti eða pela losar um þrýstinginn jafnóðum og getur þar að leiðandi gert flugtak og lendingu bærilegri fyrir barnið.

5. Hafið lítil heyrnartól meðferðis sem passa á höfuð barnsins. Leyfið barninu að hlusta á róandi hljóð úr snjalltækjum ykkar á meðan á fluginu stendur. Það hefur róandi og sefandi áhrif á barnið og minni fyrirhöfn fyrir alla.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert