Draumaborgin Washington

Georgetown er fallegt hverfi í Washington.
Georgetown er fallegt hverfi í Washington.

Fólk sem horfir einstaka sinnum á fréttir eða horfir á bandarískt sjónvarpsefni finnst mögulega eins og það hafi komið til höfuðborgar Bandaríkjanna eða séð allt. Blaðamaður fór nýlega í stutta ferð til Washington D.C. og komst að því að borgin er svo miklu meira en teppalögð skrifstofa í Hvíta húsinu. 

Flogið var með Play til Baltimore/Washington-flugvallarins. Það var einfalt að komast í gegnum flugvöllinn og eftir það var keyrt til höfuðborgarinnar sem er í um klukkutíma fjarlægð.

Tveir dagar eru ekki langur tími í nýrri borg, nýju landi eða nýrri heimsálfu. Það vinnur þó með Washington að það er hægt að skoða ansi margt á einum degi og það án þessi að stíga fæti inn í bíl. Borgin sjálf er nokkuð lítil, svona ef miðað er við þá kenningu að allt sé stórt í Bandaríkjunum. 

National Mall

Mollið í Washington er engin venjuleg verslunarmiðstöð heldur samansafn af merkilegum minnisvörðum og byggingum. Þetta er það sem allir þurfa krossa af listanum sem koma til borgarinnar. 

Það er gott að byrja ferðalagið hjá látlausan minnisvarða um Víetnamstríðið. Þaðan er farið að minnisvarðan um Lincoln sem minnir á grískt hof. Þetta var bara byrjunin og kom þarna strax bersýnilega í ljós leiðtogadýrkun Bandaríkjamanna. 

Lincoln Memmorial.
Lincoln Memmorial.

Þegar þarna var komið við sögu miðaði vel áfram en þó var ákveðið að leigja hjól sem var besta ákvörðun ferðarinnar. Hjólin frá Capital Bikeshare eru um alla borgina og kostaði um þúsund krónur að leigja hjólið í heilan dag. Það var einfalt að skila því þegar ákveðnar byggingar voru skoðaðar nánar. 

Auðvelt er að finna sér leiguhjól í Washington.
Auðvelt er að finna sér leiguhjól í Washington.

Eftir þessa ákvörðun var hjólað að vatninu Tidal Basin og í leiðinni skoðaðir minnisvarðar um Martin Luther King, Franklin Roosevelt, Jeffererson og Washington. Að því búnu var Hvíta húsið skoðað úr öryggri fjarlægð.

Old Ebbitt veitingastaðurinn er eins og stofnun í Washington.
Old Ebbitt veitingastaðurinn er eins og stofnun í Washington.

Þegar þarna var komið að sögu var komið að hádegismat. Hið sögufræga Old Ebbitt Grill varð fyrir valinu en það er í nágrenni Hvíta hússins sem er einn elsti veitingastaðurinn í Washington. Ef þú vilt ekki enda í röð fyrir utan trukk sem selur örbylgjumat og hætta á að fá magakveisu í flugvélinni á leiðinni heim er sniðugt að gera smá rannsókn áður en borðað er. 

Hjólað að þinghúsinu.
Hjólað að þinghúsinu.

Georgetown

Seinni dagurinn í Washington-borg fór í að skoða hið fallega hverfi Goergetown. Ákveðið var að byrja við samnefndan háskóla. Blaðamaður gekk um skólalóðina en byggingin líkist helst skólanum sem galdrastrákurinn Harry Potter gekk í. Þar var blaðamaður óvænt mættur á nýnemakynningu þar sem nemar með mikið sjálfstraust reyndu að lokka unga nemendur og taugatrekkta foreldra sem héldu fast um budduna í skólann. 

Georgetown.
Georgetown.

Af skólalóðinni var ráfað um krúttlegar götur niður á hina frægu M Street sem er verslunargata í hverfinu. M Street er mögulega ofmetin nema fólk ætli í búðir. Gengið var alveg niður að Old Stone House sem er elsta óbreytta byggingin í Washington og þaðan niður að glæsilegum árbakka þar sem íslenska sendiráðið er meðal annars til húsa. 

Í Goergetown eru skemmtileg bakarí og kaffihús. Þegar hitinn fer að gera vart við sig er notalegt að ganga með fram kanalnum og gæða sér á ískaffi eða ístei. 

Skemmtilegt bakarí í Georgetown.
Skemmtilegt bakarí í Georgetown.

Næsta ferð

Blaðamaður er strax farinn að hugsa um næstu ferð til Washington og þá verða söfnin þrædd. Smithsonian-söfnin í Washington eru á meðal merkustu safna í heimi. Söfnin eru eins mismunandi og þau eru mörg. Nýjasta safnið er tileinkað sögu svartra í Bandaríkjunum og þykir það einstaklega áhugavert. 

Horft yfir Tidal Basin í Washington.
Horft yfir Tidal Basin í Washington.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert