Fjórir dýrðardagar í Róm

Trevi-gosbrunnurinn trekkir heldur betur að ferðamenn enda undurfagur á að …
Trevi-gosbrunnurinn trekkir heldur betur að ferðamenn enda undurfagur á að líta. Þar getur fólk kastað smámynt í vatnið og fengið óskir sínar uppfylltar um að hitta rómverskan maka. mbl.is/Ásdís

Allar leiðir liggja til Rómar segir máltækið og hvort sem það er rétt eður ei var kominn tími til að skoða þá mætu borg. Blaðamaður lagði því land undir fót og skellti sér í páskaferð til Rómar ásamt nokkrum fjölskyldumeðlimum. Fimm nætur og fjórir dagar voru vel nýttir en rétt dugðu til að leika túrista, sem við sannarlega vorum, og sjá það allra markverðasta sem borgin hefur upp á að bjóða. Ljóst er að þangað verður undirrituð að koma aftur, og aftur, því ekki gafst tími til að týnast nóg á götunum, kynnast hinum ýmsu gömlu hverfum og staldra lengur við og sötra espressó standandi við barborðið að Rómverja sið. En á fjórum dögum er sannarlega hægt að njóta; rölta um miðbæinn, hjóla um garða, heimsækja Vatíkanið og hið forna Colosseum. Og að sjálfsögðu borða pasta og pizzur, svo ekki sé minnst á ítalska ísinn!

Leigubíl næstum stolið

Lent var í Róm um miðja nótt og eftir að hafa næstum stolið leigubíl nöfnu minnar, sem reyndar ber millinafnið Rósa, héldum við af stað í réttum bíl í afar rúmgóða og fallega íbúð í Monti-hverfi Rómar. Hverjar eru líkurnar á því að tvær Ásdísar Ásgeirsdætur séu í sama flugi og báðar búnar að panta bíl fyrirfram? Litlar, geri ég ráð fyrir!

Eftir nokkra tíma svefn var liðið ræst því engan tíma mátti missa. Nú var haldið af stað í bæinn en fyrsta stoppið var við Spænsku tröppurnar þar sem hinn íslenski leiðsögumaður Ingólfur beið okkar, en hann má finna undir Rómarrölt á Facebook. Ingó lóðsaði okkur um miðbæinn og sagði okkur söguna á bak við hin ýmsu kennileiti. Stansað var við hinn stórfallega Trevi-gosbrunn sem slær alla aðra gosbrunna út! Ekki er hann síðri að kvöldi til, en síðar í ferðinni fórum við aftur og í það skiptið hentum við smápeningi í turkísgræna vatnið. Sagan segir að kasti maður einni mynt komi maður aftur til Rómar, kasti maður tveimur kemur maður aftur og verður ástfanginn og kasti maður þremur kemur maður aftur, verður ástfanginn og giftist Rómverja. Ég lét mér nægja eitt skipti.

Ódauðleg listaverk má finna upp um alla veggi í söfnum …
Ódauðleg listaverk má finna upp um alla veggi í söfnum Vatíkansins.

Um eftirmiðdaginn var haldið í Vatíkansöfnin og Sixtínsku kapelluna og þó það hafi alveg verið þess virði að fara þar í gegn með leiðsögn, voru þar ferðamenn eins og sardínur í dós. En ódauðleg listaverk sem voru þar uppi um alla veggi voru stórfengleg, svo ekki sé meira sagt.

Hjólað um fallega garða

Dagur tvö hófst á hjólaferð í fylgd með einkaleiðsögumanni, afar indælum Ítala að nafni Alessio. Ákveðið var að hjóla um garða frekar en að þvælast á hjólunum á umferðargötum borgarinnar. Það reyndist góð hugmynd og haldið var af stað í Villa Borghese, sem er afar skemmtilegur lystigarður með tjörnum og blómstrandi bleikum trjám. Þar inni leynist líka dýragarður Rómarborgar fyrir áhugasama. Eftir góðan túr í garðinum héldum við af stað í næsta garð, með einu kaffihúsastoppi svo hægt væri að næra sig aðeins og súpa á góðu kaffi. Næsti garður, Villa Ada Savoia, líktist frekar skógi og þar var hjólað eftir moldarstígum. Sól skein í heiði og rafmagnið í hjólunum hjálpaði vel til að komast upp litlar brekkur.

Fjölskyldan naut þess mjög að hjóla um fallega garða Rómar.
Fjölskyldan naut þess mjög að hjóla um fallega garða Rómar.

Eftirmiðdagurinn var notaður í rölt um bæinn, kíkt var í búðir og ísbúð heimsótt. Að sjálfsögðu var snætt á ítölskum veitingastað um kvöldið, sem og öll hin kvöldin.

Sagan lak af hverjum steini

Á degi þrjú var enn farið snemma á fætur enda engin ástæða til að eyða tíma í svefn þegar margt þarf að sjá. Nú lá leiðin í hringleikahúsið fræga, Colosseum. Í fylgd með leiðsögumanni og nokkrum öðrum ferðamönnum var fyrst gengið eftir götum sem eitt sinn báru hestvagna með keisurum og öðru fyrirfólki, en einnig gengu þar um götur gíraffar og fílar sem fluttir voru inn frá Afríku til að skemmta aðalsfólkinu. Alls staðar voru rústir gamalla bygginga og sagan lak þar af hverjum steini. Magnað var svo að koma inn í sjálft hringleikahúsið sem gat upprunalega tekið 50.000 manns í sæti og var notað fyrir bardaga skylmingaþræla og aðrar svipaðar skemmtanir.

Það er mögnuð upplifun að koma í hringleikahúsið Colosseum og …
Það er mögnuð upplifun að koma í hringleikahúsið Colosseum og gott að vera með leiðsögumann.

Colosseum var byggt á árunum 72 til 80, en það var Vespasíanus sem lét hefja byggingu þess en sonur hans Títus var kominn til valda þegar húsið kláraðist. Skemmdist það nokkuð árið 217 þegar það varð fyrir eldingu og aftur í jarðskjálftum á miðöldum. Um kvöldið var horft á stórmyndina Gladiator með Russel Crowe í leikstjórn Ridley Scott. Allt sem fyrir sjónir hafði komið fyrr um daginn lifnaði nú við á hvíta tjaldinu og sá maður myndina allt öðrum augum en áður.

Yfir níu hundruð kirkjur

Á síðasta degi fyrir brottfarardag hittum við hóp ferðamanna undir svölum Mussólínís á Feneyjatorginu. Fyrir framan gríðarstóra byggingu, sem nú hýsir safn og hluta varnarmálaráðuneytis, mátti sjá stóra styttu af ítalska konungnum Vittorio Emanuele II. á hestbaki og er styttan sú stærsta í Róm. Það sem okkur þótti merkilegt við þessa styttu var að inni í hestinum var eitt sinn haldið matarboð þar sem 22 sátu til borðs og snæddu.

Sagan lekur af hverjum steini í Róm.
Sagan lekur af hverjum steini í Róm.

Leiðsögumaðurinn, kona nokkur frá Chile, kom móð og másandi örlítið sein því hjólið hennar hafði bilað. Það var fyrirgefið og haldið var af stað í göngutúr um gyðingahverfi Rómar. Stutt stopp var í gyðingabakaríi sem var afar fábrotið og bauð aðeins upp á nokkrar tegundir af misgóðu bakkelsi. Gangan endaði hinum megin árinnar í Trastevere-hverfinu sem er mjög sjarmerandi. Þar eru þröngar götur, veitingastaðir og torg með kirkjum, sem eru reyndar víða í Róm, en yfir níu hundruð kirkjur má finna í borginni! Við kvöddum hópinn og gengum sem leið lá á Péturstorgið sem reyndist þá lokað en fyrir utan biðu þúsundir ungmenna sem áttu að fá að berja páfann augum nokkrum tímum síðar. Ekki vildum við bíða í steikjandi sólinni eftir því og létum okkur nægja að sjá torgið úr smá fjarlægð.

Róm er afar falleg á vorin og nóg að sjá.
Róm er afar falleg á vorin og nóg að sjá.

Það voru ánægðir ferðalangar sem héldu heim á leið á fimmta degi. Og vegna þess að við hentum öll smámynt í gosbrunninn er ljóst að til Rómar komum við aftur!

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert