Lauf frumsýndi fyrsta malarhjólið sitt, True grit, fyrir fimm árum og er Seigla þriðja hjól fyrirtækisins og líklegur arftaki True grit, þótt fyrirtækið segi enn engin áform um að hætta framleiðslu þess. Í síðasta mánuði var ég ásamt nokkrum erlendum blaðamönnum mættur upp í Borgarfjörð til að líta nýja fákinn augum og prófa hann á gegnsósa malarvegum héraðsins eftir svakalegt rigningatímabil.
Við skulum byrja á að fara stutt yfir hvað það er sem skilur hjólin tvö að. Fyrst ber að nefna að meðan hægt var að koma 45 mm breiðum dekkjum undir eldra hjólið komast allt að 57 mm breið dekk (2,25 tommur) undir Seigluna. Var þetta að mestu gert án þess að breyta hlutföllum á stellinu, en demparaframgaffallinn, sem hingað til hefur verið helsta kennileiti Lauf, hefur þó tekið örlitlum breytingum. Fjöðrunin er áfram sú sama, en lögun gaffalsins fyrir ofan dekkið var breytt til að hægt væri að koma breiðari dekkjum undir.
Hin stóra breytingin er lögun stellsins að aftan, en sætisstagið (e. seatstay) var lækkað þannig að í stað þess að festast beint á samskeyti sætistúbunnar (e. seat tube) og topptúbunnar (e. top tube) er það komið niður á miðja sætistúbuna. Með þessu var markmiðið að búa til fjöðrun að aftan og þannig jafna fjöðrun á hjólinu í heild og segir Lauf að um sé að ræða allt að 4 mm hreyfingu sem þetta skili, en framgaffallinn skilar 30 mm fjöðrun.
Fyrir þá sem eru áhugasamir um frekari breytingar má nefna að öxlarnir eru nú 12 mm en ekki 15 mm og hjólið býður nú aðeins upp á eitt tannhjól að framan, en á True grit var hægt að koma fyrir tveimur.
Aftur að prufuakstrinum. Eins og fyrr segir hafði verið mikið rigningaveður dagana áður og voru ár mórauðar eftir leysingarnar og malarvegir blautir, en samt ekki þannig að frost væri alveg farið og virkuðu vegirnir því oft þéttari en þeir í raun voru. Varð það til þess að talsvert meira reyndi á að komast í gegnum drulluna en ef um þurran veg væri að ræða.
Fyrri daginn var ákveðið að taka stuttan dag og hjóla upp Lundarreykjadal norðan megin á malarveginum. Ég hafði fengið hjól með 50 mm dekkjum, en aðrir voru að prófa frá 45 upp í 57 mm útfærslur. Sjálfur hef ég átt True grit síðustu fjögur til fimm ár og verið með 40 og 45 mm undir og þekki því ágætlega þá eiginleika. Eins og fram kemur í hálendisferðasögunni á öðrum stað í þessu blaði er ótrúlegt hvað aukið flot gefur gefið manni í réttum aðstæðum og strax á leið út heimreiðina varð ljóst að 50 mm gefa manni strax talsvert umfram minni dekkin. Þá sást líka greinilega hvað tvö sem voru á 57 mm dekkjum áttu auðveldara með að fara í gegnum drulluna en þau sem voru á minnstu dekkjunum.
Til eru tveir skólar varðandi hvort breiðari dekk séu betri eða verri þegar komast á hratt yfir. Í langan tíma hafa René Herse hjá Bicycle Quarterly og aðrir samferðamenn hans talað fyrir því að breiðari dekk dragi lítið sem ekkert úr hraða, jafnvel þegar farið er úr 25 mm götuhjóladekkjum upp í allt að 44 mm. Segir hann þetta stafa af því að með breiðari dekkjum éti dekkin upp litla hristinginn sem verði alla jafna á götum vegna yfirborðs sem er ekki fullkomlega slétt og komi þar með í veg fyrir neikvæðar afleiðingar hristingsins á hraða. Til viðbótar valdi minni hristingur því að þægilegra sé að hjóla og þar með viðhaldist kraftur hjólarans lengur. Hinn skólinn og sá sem hefur verið allsráðandi síðustu öldina horfir til þess að stærri snertiflötur dekks valdi meiri mótstöðu og dragi þar með úr hraða og því sé almennt betra að vera á mjórri dekkjum.
Þó að þessi umræða eigi almennt mest við um götuhjólreiðar hefur þetta líka smitast upp í malarhjólreiðar og þegar Lauf kom fyrst á markað með True grit þótti bilið á gafflinum með því mesta. Eins og í götuhjólreiðum virðast menn í malarhjólreiðum hallast í áttina að hugmyndum Herse og 40-45 mm dekk eru það algengasta í dag og jafnvel upp í 50 mm. Fáir ef nokkrir framleiðendur malarhjóla hafa hins vegar fært sig alla leið í 57 mm dekk.
Ég er ekki með sérfræðiþekkingu eða rannsóknir sem bakka upp hvort 50 mm fari hraðar eða hægar en 45 mm, en ég get allavega sagt að tilfinningin með breiðari dekk var nokkru mýkri og svo virðist sem 45-50 mm sé að verða nýi meðalvegurinn fyrir malarkeppnir.
Fjöðrunin að aftan var annað sem ég var spenntur að prófa á eigin skinni, bókstaflega. Tilfinningin þegar farið var yfir ójöfnur var strax nokkuð önnur en á True grit-hjólinu og fljótlega fann ég fyrir minna stressi við að hjóla í minni ójöfnur en áður og var næstum alveg hættur að stíga upp meðan farið var yfir ójöfnurnar, heldur var mun þægilegra að halda bara áfram að snúa pedölunum. Að mínu mati er þetta klár kostur í ferðum og hvað þá malarkeppnum þar sem yfirborðið er ójafnt eða búast má við t.d. þvottabrettum. Án þess að hafa prófað það í raun finnst mér þó ólíklegt að 4 mm fjöðrunin muni breyta öllu þegar kemur að arfaslæmu þvottabrettinu á Dómadalsleið ár eftir ár í Rift, en klárlega mun hún ekki skemma fyrir.
Á bakaleiðinni þennan fyrsta dag var farið niður sunnan megin, en þar er malbik. Ekkert slæmt um þann kafla að segja, en það fékk mig samt til að velta fyrir mér hvort þessi aukafjöðrun að aftan væri jafnvel of mikið fyrir þá sem hugsa hjólið að mestu fyrir almenna notkun í bænum en að hafa smá möguleika á að hoppa upp í Heiðmörk einu sinni og einu sinni yfir sumarið.
Seinni daginn var tekinn hringur um Mýrar, en byrjað var í þægilegum meðvindi meðfram Langárósi. Vegurinn var fyrst nokkuð góður, en fljótlega fór færið að þyngjast og á nokkrum stöðum var annaðhvort hjólað í stanslausum pollum eða drullu sem þýddi að vöttin hækkuðu til muna. Á leiðinni var slatti af litlum ójöfnum, holum og öðru slíku og á þessari 80 km leið sem farin var fann ég svo gott sem ekkert fyrir sitjandanum, þrátt fyrir að vera ekki á eigin hnakki. Tilfinningin var að fjöðrunin og aukin dekkjabreidd léttu nokkuð vel undir með manni og gerðu ferðina þægilegri.
Rétt er þó að nefna að fyrsta tilfinningin með afturfjöðrunina var að manni leið eins og það væri sprungið hjá manni og leit í sífellu niður á afturdekkið. Mér reyndari menn sögðu það einfaldlega vera fjöðrunina að verki.
Ég hef nokkrum sinnum á síðustu árum fundið á ferðalögum um hálendið eða á malarvegum/stígum að 40-45 mm dekk voru í það minnsta. Átti það sérstaklega við um grófa kafla og þar sem sandur getur verið gljúpur eða undirlag mjög blautt og drullukennt. Aukið flot getur þar verið munurinn á því hvort þörf sé á að ganga með hjólið eða hægt að hjóla áfram. En skiptir þetta í raun miklu máli og ætti fólk sem á í dag malarhjól eða jafnvel True grit að hoppa til og skoða Seiglu?
Fyrir þá sem vilja mýkra hjól sem fer betur með sitjandann í löngum ferðum er ljóst að þetta hjól kemur vel út og það víkkar aðeins möguleika True grit-hjólsins. Fólk þarf hins vegar að gera upp við sig hvort það sé að leita að aukinni fjöðrun eða ekki. Fyrir þá sem ætla að nota hjólið sem samgönguhjól og taka svo einn og einn túr upp í Heiðmörk er ólíklegt að Seiglan bæti miklu við það sem True grit eða önnur malarhjól gera í dag. Dekkjabreiddin ein og sér gerir hjólið þó að áhugaverðum kosti í mínum huga og fyrir þá sem horfa til lengri dagstúra, malarkeppna og nokkurra daga hálendisferða er það mjög spennandi kostur.
Þessi grein birtist fyrst í Hjólablaði Morgunblaðsins sem kom út á laugardaginn. Þar má finna fjölmargar greinar, ferðasögur og umfjallanir um málefni sem tengjast hjólreiðum. Hægt er að nálgast blaðið í heild hér að neðan.