Að vera hjólandi ofan 700 metra um norðanvert miðhálendið með sýn á fjóra jökla í um 22-24 gráðu hita og nær stanslausum meðvindi inn í miðnætursólina um miðjan júlímánuð. Engar áhyggjur nema hvort nægri sólarvörn hafi ekki örugglega verið pakkað, en inntaka á íslenskri náttúru og landslagi á sama tíma í hámarki. Það er fátt sem toppar svona hjólaferðir og hér fylgir ferðasaga úr einni slíkri sem undirritaður fór síðasta sumar ásamt Hauki Eggertssyni.
Haukur hélt því af stað nokkrum dögum á undan og fékk fljótlega fínasta veður (það muna allir hvernig veðrið var norðan Holtavörðuheiðar síðasta sumar, er það ekki?). Fyrir utan að koma með eigin mat og græjur voru einu skilaboðin frá Hauki að koma með úrbeinað lambalæri, tvö súrdeigsbrauð og smjörstykki sem átti meðal annars að vera ákveðin undirstaða í næringu okkar næstu þrjá daga.
Morguninn sem Haukur vaknaði í tjaldi einhvers staðar á Eyvindarstaðaheiði og hélt af stað var ég nokkuð seinn fyrir og gleymdi því að kaupa súrdeigsbrauðið áður en lagt var af stað, en sem betur fer reddaðist það í Borgarnesi. Því næst var haldið beinustu leið í Varmahlíð í Skagafirði þar sem hjólið var tekið af bílnum, töskum komið fyrir á hjólinu og svo haldið af stað fram Skagafjarðarveg í Lýtingsstaðahrepp hinum forna.
Við vegamótin að Svartárdal, þar sem við ætluðum að hittast eftir að Haukur kæmi niður Gilhagadalinn, var hins vegar engan Hauk að sjá þótt ég væri örlítið í seinna lagi. Ekki hjálpaði til að hitinn var rétt norðan megin við 20 gráðurnar og ég hafði gefið nokkuð vel í frá Varmahlíð til að vera ekki mikið seinn. Var því svitastaða strax orðin eftir því, jafnvel þótt maður væri varla kominn af stað. Kom í ljós að Haukur var ekkert endilega að stressa sig á því að vakna snemma í ferðum sem þessum og koma sér af stað og var hann því mættur um hálftíma seinna en ég á vegamótin.
Þarna hófst loks hin eiginlega ferð fyrir mér. Allt stress hversdagslífsins var að baki, hálendið fram undan og veðurspáin með því besta sem hægt var að óska sér.
Fyrir áhugasama um búnaðarmál, hjólaval og önnur skipulagsmál þá var Haukur á sínum gamla góða jálk Wheeler 26“ frá því snemma á þessari öld með framhjóladempara og 2,25“ breið dekk. Hjól sem hefur þvælst um gríðarlega víða um landið og reynst honum vel. Ég var hins vegar á Lauf True grit 29“ hjóli sem ég hafði notast við í tvö ár og var mjög sáttur með bæði sem leiktæki í Heiðmörk, en líka í tveggja til fjögurra daga þvælingsferðir þar sem áhersla var að reyna að ferðast sem léttast. Voru 45 mm dekk undir hjólinu í ferðinni.
Haukur var með tvær afturtöskur á sínu hjóli, en þær báru tjald (létt og lítið tveggja manna tjald), mat, fatnað og eldunargræjur. Ofan á var svo svefndýna og í lítilli stelltösku var viðgerðasett og alls konar tilheyrandi. Í stýristösku voru svo ýmsir hlutir til nota innan dags, meðal annars nasl, sími, húfa og vettlingar, sólarvörn, kort o.fl.
Ég var með svefnpoka og dýnu í hnakktösku og svo plastpoka utan um til að verja innri pokann. Í stýristösku var ég með auka fatnað, sem í raun var eitt par af sokkum, föðurland fyrir kvöldin, regn- og vindjakki og hnésíðar hlýjur, þótt það síðara tvennt hafi ekki þurft að nota. Í miðlungsstórri stelltösku var svo viðgerðasett og tilheyrandi og orkustykki. Fleiri orkustykki og hnetupoki sem hugsað var fyrir hverja dagsleið var svo í topptöskunni ofan á stellinu og í 10l bakpoka var ég með kvöldmat, súrdeigsbrauðin tvö og annan mat. Þrátt fyrir að að ferðin væri í mínum huga „létt“ ferð hafði Haukur lagt mikið upp úr því að það væri mikilvægt að njóta í svona ferðum og varð ég auðvitað við því.
Ferðin inn Vesturdal gekk vel og fljótlega vorum við komnir fram hjá innsta byggða bæ í dalnum og áfram héldum við alla leið inn að eyðibýlinu Þorljótsstöðum, sem þó er enn notað af niðjum síðasta ábúandans. Þar áðum við áður en haldið var upp mestu brekku ferðarinnar, en hún reyndist báðum ferðalöngum ofviða á hjólinu á einhverjum tímapunkti, enda hallinn umtalsverður á sama tíma og undirlagið var mjög laust. Báðir hjóluðum við þó lang stærstan hluta brekkunnar og í mínu tilfelli hófust fyrstu tilraunirnar með að mýkja nokkuð í dekkjum til að auka grip, þó líklega hafi ég ekki gengið nógu langt í þeim efnum. Upp komumst við að lokum og þar beið okkar haganlega útbúið borð út steinhellu auk steinstóla í stíl, en þessi fyrirtaks útsýnisstaður var útbúinn af tveimur vegagerðarmönnum sem ruddu veginn upp á sínum tíma.
Eftir stutta nestipásu var haldið áfram og við tóku skemmtilegir og þjappaðir, en þurrir malar/moldarkaflar þar sem hjólin þutu áfram og gaman var að taka ýktar beygjur aðeins upp í kantana. Fljótlega fór að sjást í Hofsjökul í fjarska og baðaði kvöldsólin hann litum sínum meðan við færðumst lengra upp á heiðina. Í stað þess að fara alla leið að Reyðarvatni og gista þar um kvöldið ákváðum við að taka smá hliðarspor um fáfarinn vegslóða og kíkja niður í Keldudal, en það er fáfarinn og þröngur dalur sem er einn af þverdölum Austurdals.
Á þessum stutta kafla komst ég vel að því hvaða töfra lækkaður loftþrýstingur í dekkjum getur gert. Þó að ekki sé ráðlagt að fara undir 20 pund á „tubeless“ dekkjunum sem ég var með fór ég nú nokkuð undir það í stuttan tíma, enda fórum við hægt yfir í sendnum hjólförunum. Það var eins og með þessi töfra tvö pund sem jeppamenn tala alltaf um. Á einum tímapunki eftir að hafa tekið örlítið meira úr dekkjunum kom allt í einu flotið og gripið sem ég var að leita að og þó ég hefði ekki treyst dekkjunum svona loftlitlum í langan tíma var þetta ótrúleg tilfinning.
Í Keldudal er jafnframt gangnamannaskáli, en við þurftum að taka á okkur um 200 metra lækkun niður snarbrattan vegslóða sem líklegast er ekki notaður nema 2-3 á ári. Bremsurnar á báðum hjólum fengu alla vega að hitna vel á þessum síðustu tveimur kílómetrum.
Dagurinn eftir hófst því á 200 metra bröttu klifri upp nær óhjólanlegan vegslóða, en eftir að við komumst aftur inn á Skagafjarðarleið hófst gamanið á ný. Með létta golu í bakið og bongóblíðu hjóluðum við framhjá Orravatnsrústum og svo yfir brúna á Austari-Jökulá og þar með inn í Akrahrepp, sem verður á næstunni einnig hinn forni.
Við tóku svo vöð yfir Strangalækur og Hnjúkskvísl áður en farið var yfir Laugakvísl og komið inn í Laugafell. Eins og fyrr segir var veðrið með albesta móti og þegar mælirinn er farinn að banka í 24 gráður er lítið annað hægt að gera en að stoppa þar og skella sér í laugina og skola af sér ferðarykið áður en haldið er áfram.
Eftir Laugafell héldum við í norðaustur Eyjafjarðarleið og svo strax inn á Dragaleið, en á stuttum kafla er þar um 170 metra hækkun í rúllandi landslagi og uppsafnað líklega um tvöföldun á því. Var það einkar skemmtilegur kafli eftir því sem meðvindurinn jókst stöðugt. Að lokum tekur við ágætislækkun inn á Sprengisandsleið og héldum við þá í norðurátt í átt að Bárðardal, en vel var þarna farið að líða á kvöldið þótt enn væri fullbjart.
Upphaflega planið var að taka aftur góða lækkun ofan af Sprengisandsleið niður að Skjálfandafljóti þar sem gangnamannaskáli nokkur er staðsettur, með svona góðan meðvind var frekar ákveðið að halda áfram. Fljótlega varð þó ljóst að meðvindurinn fór að verða aðeins of mikill og eftir mánuð án teljandi úrkomu norðan heiða þyrlaðist rykið upp og varð að smá sandstormi. Við tímdum þó ekki að sleppa þessum sterka ferðafélaga alveg strax auk þess sem upplifunin þetta kvöldið var eitthvað svo óraunveruleg, en um leið frábær. Að hjóla í gegnum sandrykið og sjá öldurnar fram undan baðaðar í rauðum kvöldbjarma á heiðskíru sumarkvöldi var hreint út sagt ólýsanlegt.
Við áðum svo við fyrsta gróðurbalann sem við komum að með læk okkur við hlið, en við vorum fljótir inn í tjald þar sem þegar var orðið vel hvasst. Nú erum við báðir nokkuð vanir því að gista í tjöldum og jafnvel um hávetur, en þessa nótt var algjört hávaðarok og svefninn varð því ekkert of mikill.
Um morguninn hafði þó lægt mikið og veðrið aftur með huggulegasta móti. Skínandi sól, og hitinn ekki mikið minni en fyrri dagana tvo á undan. Við tóku rúllandi hæðir, með nokkrum stuttum bröttum brekkum inn á milli, en þó alltaf eilítið í heildina niður á við. Svo kom að því að lækka sig niður í Bárðardalinn rétt fyrir ofan Aldeyjarfoss. Það var ekki hægt að fara þar um án þess að stoppa aðeins og virða þessa flottu náttúrusmíð fyrir sér og bæta aðeins á orkutankinn.
Eins og einhver sagði er Bárðardalurinn mjög langur og einmitt þegar við komum ofan í hann fór vindáttin aðeins að snúast gegn okkur, en niður mest allan dalinn vorum við með nokkuð sterkan hliðarvind. Það verður þó seint sagt að það hafi eyðilagt mikið og gaman að fara um grösugar sveitirnar og njóta. Við Stóru-Velli snæddum við nesti og skiptum yfir á austurbakka Skjálfandafljótsins.
Við vorum svo mættir á Fosshól við Goðafoss um hádegi, í góðan tíma áður en farið okkar átti að koma frá Egilsstöðum, en við nýttum okkur að sjálfsögðu þjónustu Strætó sem getur hæglega ferjað hjól milli staða, þótt algengast sé líklega að það séu erlendir ferðamenn sem nýti sér þá þjónustu. Eftir stutt stopp á Akureyri og verðskuldaða sundferð kom svo skiptivagninn sem flutti okkur í Varmahlíð þar sem bíllinn beið tilbúinn fyrir heimferðina. Það er nefnilega nokkuð einfalt að búa sér til leiðir sem ekki eru hringur (og þar með oftast komist hjá mesta mótvindinum) með því að nýta sér almenningssamgöngukerfið á þennan hátt.
Í heildina var þetta alveg dásamleg ferð sem gekk vonum framar. Bæði hjólin stóðu sig vel í ferðinni, en fjallahjólið hafði bæði dekkjabreidd og dempunina fram yfir malarhjólið t.d. þegar sandurinn var sem lausastur og á nokkrum köflum sem voru sem grófastir. Þeir voru þó ekkert mjög margir á leiðinni. Malarhjólið kom hins vegar vel út bæði í Bárðardal og upp úr Skagafirðinum, sem og á þeim köflum, t.d. frá Vesturdal inn að Laugafelli, þar sem vegurinn var nokkuð þjappaður. Eftir á að hyggja hefði ég litlu breytt og þó að örlítið meiri dekkjarbreidd hefði mögulega verið betri við Keldnadal pössuðu 45 mm dekkin mjög vel fyrir ferðina að öðru leyti.
Þar sem leiðarvalið var ákveðið út frá veður- og vindaspá er lítið hægt að setja út á hana, enda fengum við sem fyrr segir meðvind eða hliðarmeðvind með okkur mest alla leiðina. Fyrir aðra sem vilja fara sömu leið er fyrst og fremst að hafa í huga að árnar sem eru þveraðar geta stækkað nokkuð í vatnaveðri, auk þess sem vegirnir geta þá orðið torfarnari. Einnig er gott að hafa í huga að þarna eins og á öðrum stöðum á hálendinu er ekki alltaf hægt að gera ráð fyrir 20+ gráðum, heldur er líklegra að hitastigið sé undir 10 gráðum og sveiflur í veðri meiri. Að því sögðu er hæglega hægt að mæla með þessari leið og er einfalt að stytta hana niður í tvo daga með að hjóla alla leið í Laugafell á fyrsta degi og restina á seinni degi, eða taka afbrigði af henni og fara frekar niður í Eyjafjörð en í Bárðardal frá Laugafelli. Slíkt gæti þó orðið nokkuð grófari leið, sérstaklega á malarhjóli.
Þessi grein birtist fyrst í Hjólablaði Morgunblaðsins sem kom út á laugardaginn. Þar má finna fjölmargar greinar, ferðasögur og umfjallanir um málefni sem tengjast hjólreiðum. Hægt er að nálgast blaðið í heild hér að neðan.