Það var rigning í Tórínó í gær þegar íslensku eurovisionfararnir tóku æfðu í annað sinn á sviðinu. Þegar horft er til veðurs á að rætast heldur betur úr veðrinu í ítölsku eurovisionborginni og sólin fer að skína í næstu viku.
Á uppáhaldsveðursíðu Íslendinga, Yr.no, má sjá að það spáir rigningu í dag og aðeins 14 stiga hita. Það á einnig að vera skýjað á laugardaginn og rigna aðeins á aðfaranótt sunnudags. Þegar nær dregur keppni fer að birta til sem við Íslendingar hljótum að vona að sé táknrænt fyrir nafnið á laginu og gengi Íslands í keppninni í ár.
Þegar lagið Með hækkandi sól verður flutt á fyrra undanúrslitakvöldinu á þriðjudaginn 10. maí verður sól og allt að 24 stiga hiti ef marka má norsku spánna. Á laugardaginn 14. maí þegar úrslitin fara fram verður svo allt að 27 stiga hiti í Tórínó.