Gerði tíu mistök á skemmtiferðaskipi

Það er kannski betra að fara með ferðafélaga í skemmtiferðasiglingu.
Það er kannski betra að fara með ferðafélaga í skemmtiferðasiglingu. Ljósmynd/Colourbox

Margir sjá skemmtiferðasiglingar í hillingum, að sigla á nóttunni og skoða framandi og fallega staði á daginn. Ferðirnar eru oft dýrar og borgar sig ekki að gera byrjendamistök. Mistökin geta verið fjárhagsleg en líka tengd upplifuninni um borð. 

Joey Hadden greinir frá því á vef Insider að hún hafi gert nokkur mistök þegar hún fór í sínu fyrstu ferð á skemmtiferðaskipi. Hadden fór í viku ferð á einu stærsta skemmtiferðaskipi í heimi sem sigldi meðal annars til Mexíkó og Bahamaeyja. 

Ferðin var of löng

Ferðalangurinn segir að viku ferð hafi verið of langur tími fyrir jómfrúarferð sína á skemmtiferðaskipi. Á fjórða degi vildi Hadden fara heim enda komin með nóg af sjóveikinni og nýja lífsstílnum. 

Var einmana

Hadden fór ein í ferðina en ef hún færi í siglingu aftur myndi hún fara með annarri manneskju. Sjö daga ferð hefði verið skárri með ferðafélaga. 

Káetuvalið var slæmt

Káetan sem vinkona okkar valdi var ekki það besta né það versta, var með glugga til dæmis. Þrátt fyrir það fann hún vel fyrir sjónum sem gerði hana veika. Næst myndi hún vanda valið. 

Eyrnatapparnir gleymdust

Ferðalangurinn hefði sofið betur með eyrnatappa meðferðis. Hadden reyndi að sofa með heyrnatól en það gekk illa þegar hún svaf á hliðinni. 

Sjórinn er ekki fyrir alla.
Sjórinn er ekki fyrir alla. Ljósmynd/Colourbox

Gleymdi reiðufé

Hadden gleymdi reiðufé sem skipti miklu máli þegar hún fór í skoðunarferðir í landi. Það var hraðbanki á skipinu en það kostaði sitt að taka út peninga í honum. 

Of fín föt í töskunni

Hadden tók fín föt með í töskuna. Hún þurfti ekki að eyða dýrmætu plássi í töskunni fyrir fín föt sem henni finnst óþægileg. Svo kom í ljós að fólk klæddist allskonar fötum á kvöldin. 

Gleymdi að panta

Ferðalangurinn missti af skemmtunum þar sem það þurfti að panta þær þegar lagt var úr höfn. 

Fínu veitingastaðirnir ekki þess virði

Maturinn sem var innifalinn var mjög góður og hefði ferðalangurinn ekki þurft að panta borð á fínni veitingastöðum. Þannig hefði verið hægt að spara peninga. 

Nýjar slóðir á hverjum degi.
Nýjar slóðir á hverjum degi. Ljósmynd/Colourbox

Of mikið á ströndinni

Hadden bókaði tvær skoðunarferðir sem enduðu á góðum strandsvæðum. Tveir sólbaðsdagar var of mikið og hefði hún viljað nýta tímann til þess að skoða meira. 

Bókaði næturflug

Eftir skemmtiferðasiglinguna bókaði ferðalangurinn Hadden næturflug sem voru mikil mistök. Hadden endaði á því að bíða í 14 tíma á flugvellinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert