Alltaf hægt að uppgötva eitthvað nýtt

Ólafur Heiðar Helgason Hlaupahringir á Íslandi
Ólafur Heiðar Helgason Hlaupahringir á Íslandi Ljósmynd/Aðsend

Hagfræðingurinn Ólafur Heiðar Helgason er forfallinn hlaupagarpur. Hann er höfundur bókarinnar Hlaupahringir á Íslandi en utanvegahlaup hafa verið gífurlega vinsæl undanfarin ár. 

Ólafur segir að í bókinni séu að finna hlaupaleiðir fyrir byrjendur sem og lengra komna og vilja innblástur að nýjum og skemmtilegum hlaupaleiðum í náttúrunni. „Ég hef stundað útivist lengi og hef þá staðgóðu þekkingu á landinu okkar sem þarf til að finna góðar leiðir. Ég vona að með bókinni opnist ný vídd í þessari frábæru íþrótt og ég vona líka að hún hjálpi byrjendum að taka fyrstu skrefin,“ segir Ólafur um bókina. 

„Ég datt inn í langhlaup um tvítugt en það var í kringum 2018 sem ég byrjaði að æfa af alvöru. Síðan lenti ég í langvarandi meiðslum sem voru hrikalega pirrandi en opnuðu um leið augu mín fyrir því hvað íþróttir geta verið stór hluti af lífi manns. Auðvitað getur verið erfitt að rífa sig af stað, sérstaklega til að byrja með, en það jafnast ekkert á við að klára góða hlaupaæfingu. Svo er líka gaman að sjá getuna aukast en það tekur yfirleitt nokkrar vikur í skynsamlegu æfingaplani.“

Helgafellshringurinn.
Helgafellshringurinn.

Áhugi á útivist alltaf að aukast

Utanvegahlaup hafa verið mjög vinsæl upp á síðkastið og telur Ólafur ástæðurnar vera nokkrar.

„Ég held að þar spili saman að utanvegahlaup eru að sumu leyti aðgengilegri en götuhlaup og að áhugi Íslendinga á útivist er alltaf að aukast. Það sem ég á við með að utanvegahlaupin séu aðgengilegri er að álagið á stoðkerfið er oft minna og að því leyti henta þau breiðari hópi. Ég held reyndar að skilin á milli þess að leggja stund á götu- og utanvegahlaup séu alltaf að minnka. Við sjáum það til dæmis í utanvegahlaupinu Puffin Run í upphafi mánaðar þar sem okkar bestu langhlauparar, Andrea Kolbeinsdóttir og Arnar Pétursson, komu, sáu og sigruðu. Í bókinni Hlaupahringir á Íslandi er einmitt fjallað um allan skalann af hlaupaleiðum, allt frá hreinum götuleiðum upp í tæknilega krefjandi fjallaleiðir.“

Huldujökull.
Huldujökull.

Áttu þér uppáhaldsstað á Ísland?

„Þegar stórt er spurt. Hreinskilna svarið er nei því að það eru svo margir staðir fallegir í góðu veðri en til þess að skila ekki auðu þá nefni ég Skaftafell. Þar er einmitt einn hringurinn í bókinni, frábær 15 kílómetra leið inn í Morsárdal og til baka.“

Kjarnaskógur.
Kjarnaskógur.

Gott að ganga líka

Aðspurður segir Ólafur að það sé vel hægt að ganga allar leiðirnar í bókinni og vill meina að þær séu tilvaldar gönguleiðir. 

„Fyrir marga sem vilja byrja að hlaupa er líka mjög gott að leggja grunninn með því að ganga. Vanir hlauparar ganga reyndar líka því víða á þessum náttúruleiðum koma brattir eða torfærir kaflar. Allar leiðarlýsingar og myndir í bókinni taka þó mið af þörfum hlaupara sem hafa eðli málsins samkvæmt minni tíma til að átta sig á aðstæðum en göngufólk.“

Grímubrekkur.
Grímubrekkur.

Ferð þú í stundum bara út að ganga eða hleypur þú allt sem þú ferð?

„Þótt endorfínið sé eftirsóknarvert þá færi nú ekki vel fyrir manni ef maður myndi hlaupa öllum stundum. Ég tek mér hvíldardaga og svo eru fjallgöngur mjög góð krossæfing fyrir utanvegahlaupara. Ég er einmitt að fara á Hrútfjallstinda í Öræfajökli í lok mánaðar, æðisleg jöklaganga í góðra vina hópi.“

Hafnarhringurinn.
Hafnarhringurinn.

Hvað er erfiðasta hlaup sem þú hefur farið í?

„Hér komum við að þessu með dagsformið sem getur verið svo hrikalega misjafnt. Ég tók hálfmaraþon í Mývatnshlaupinu í fyrra, æðislegt hlaup í fallegu umhverfi. Ég var hins vegar illa sofinn og nærður fyrir hlaupið og þreyttur eftir langan akstur norður. Það bætti svo ekki úr skák að það var stífur mótvindur drjúgan hluta leiðarinnar. Síðasti kílómetrinn er upp brekku við Jarðböðin og þar var ég algjörlega að niðurlotum komin. Minningin er samt skemmtileg og á myndunum þar sem ég kemst yfir endalínuna er ég svo bugaður að það er ekki annað hægt en að hlæja.“

Grenjadalur-og-Hraundalur.
Grenjadalur-og-Hraundalur. Ljósmynd/Aðsend

Margar góðar leiðir á höfuðborgarsvæðinu

Með hvaða leið mælir þú með fyrir byrjendur?

„Í Hlaupahringjum á Íslandi eru leiðir af öllum erfiðleikastigum og þar á meðal fyrir byrjendur. Ein mjög fín utanvegaleið af auðveldari toga fyrir þau sem búa á höfuðborgarsvæðinu er um Skíðasporið svokallaða í Heiðmörk. Sú leið er styttri en Ríkishringurinn sem margir þekkja og liggur um lítt farnar slóðir sem er skemmtilegt að heimsækja. Fyrir þau sem búa fyrir norðan er önnur mjög góð leið í bókinni um Kjarnaskóg við Akureyri.“

Ljótipollur.
Ljótipollur. Ljósmynd/Aðsend


Ólafur á erfitt með að velja sína uppáhaldsleið og segir það eins og að gera upp á milli barnanna. 

„Ég get ekki valið neina eina leið en það rifjast upp frábærar minningar í eyðivíkum á Vestfjörðum og Austfjörðum, yndislegar leiðir undir sunnanverðum Vatnajökli og óvæntar perlur við Hengil og á Reykjanesskaga. Svo er merkilegt hvað það er alltaf hægt að uppgötva eitthvað nýtt hér í skotspöl frá borginni, hvort sem er í Heiðmörk eða ofan við Mosfellsbæ.“

Ertu með spennandi hlaup á dagskrá í sumar?

„Já, ég ætla að taka Laugavegshlaupið í fyrsta skipti. Það verður algjörlega æðislegt. Svo er Reykjavíkurmaraþonið auðvitað fastur punktur á tímabilinu.“

Fnjóskadalur.
Fnjóskadalur. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka