Gangan að Machu Picchu stóðst allar væntingar

Gestur, Guðrún Sóley, Valdimar og Herdís við Machu Picchu.
Gestur, Guðrún Sóley, Valdimar og Herdís við Machu Picchu.

Feðginin Guðrún Sóley Gestsdóttir fjölmiðlakona og Gestur Ólafsson arkitekt eru dugleg að stunda fjallgöngur og hreyfa sig út í náttúrunni. Í apríl lögðu þau land undir fót og flugu vestur til Perú í Suður Ameríku þar sem þau létu draum sinn um að ganga að Inkaborginni Machu Picchu í Andesfjöllum rætast.

Með þeim í för voru Trausti Valdimarsson læknir og Herdís Guðjónsdóttir matvælafræðingur en hópurinn gekk saman á tind Kilimanjaro saman fyrir fimm árum síðan.

Guðrún Sóley segir í viðtali við ferðavefinn að þau hafi þurft að bíða í um eitt og hálft ár eftir því að komast loksins í ferðina en að það hafi bara slípað til ferðalplönin og styrkt tilhlökkunina.

Nú eruð þið dugleg að fara á fjöll, undirbjugguð þið ykkur eitthvað sérstaklega fyrir ferðina?

„Í raun ekki. Ég stundaði bara mína vanalegu hreyfingu sem aðallega felst í jóga, fjallgöngum og stöku sjósundi. Það reyndist fínasti grunnur - svo nýttum við helgarnar til að fara á Esju eða eitthvað ögn meira krefjandi. Pabbi fer svo sína daglegu hlaupatúra með hundinn, þeir stóðu með honum í Machu Picchu.“

Feðginin Gestur Ólafsson og Guðrún Sóley Gestsdóttir gengu að Inkaborginni …
Feðginin Gestur Ólafsson og Guðrún Sóley Gestsdóttir gengu að Inkaborginni Machu Picchu í Perú í síðasta mánuði.

Hversu marga daga tók ferðin í heild sinni og hvernig var ferðaplanið?

„Allt í allt var ferðin ekki nema 10 dagar. Flugferðalagið til Perú var temmilega hrottalegt, 4 leggir, hátt í 50 klukkustundir. Mæli ekki með, það er hægt að fljúga á einfaldari hátt til Perú, við vorum óheppin með tímasetningar. Þegar til Perú var komið lögðum við svo nokkurn veginn beint af stað í gönguna. Hún var 5 dagar og 4 nætur af himnasælu sem gerði allt flugvesenið þess virði og miklu meira til.“

Hvernig þið fóruð að því að skipuleggja ferðalagið og var það flókið?

„Við bókuðum gegnum ferðaskrifstofu sem er með leiðsögumenn í Perú á sínum snærum. Þeir eru heimamenn og voru stórkostlegt fagfólk - ekki síst hvað varðaði náttúruvernd- og virðingu. Allur ágangur á náttúru er verulega takmarkaður, sömuleiðis leyfisveitingar fyrir inngangi í Inkafriðlandið þar sem við gengum (slík leyfi eru aðeins veitt fagfólki og því er nauðsynlegt að fara á þeirra vegum) og öll áhersla var á að umgangast náttúruna af virðingu, skilja ekki eftir svo mikið sem snifsi og halda öllu umfangi í lágmarki. Þetta kunni ég kraft vel að meta og gerði að mínu mati ferðina svo miklu ánægjulegri.“

Guðrún Sóley segir flugvesenið hafa núllast út þegar þau hófu …
Guðrún Sóley segir flugvesenið hafa núllast út þegar þau hófu gönguna.


Hvernig tilfinning var það að koma loks að Machu Picchu?

„Það var pínu stórkostlegt. Sálin er svo fullhlaðin af þakklæti og friði þegar maður hefur gengið um villta náttúru í 5 daga og að sjá loks þessa ævintýralegu borg (skýjum ofar) birtast var magnað.“

Í Andesfjöllum er fjölbreytt dýralíf.
Í Andesfjöllum er fjölbreytt dýralíf.


Stóðust væntingarnar um gönguna og áfangastaðinn?

„Hvort tveggja fór langt fram úr væntingum. Ég verð óbærileg þegar ég lýsi ferðinni því mér fannst þetta allt saman svo himneskt og geggjað og áhrifamikið. Dýralífið, náttúran, plöntugnóttin, lífríkið, félagsskapurinn, fjallaloftið, áreynslan, útsýnið, friðsældin, einsemdin, fróðleikurinn. Og meira að segja jöklar í augsýn! Ég hafði væntingar um náttúrunjót og útiveru en vonaðist líka líka eftir smá létti frá hversdagstaktinum og næði til að hugsa og vera í þögn. Ég fékk allar þessar óskir uppfylltar. Þó við höfum gengið saman í hóp gat hver og einn hæglega tekið langa kafla í næði. Ég nýtti mér það reglulega, hlustaði á fuglasöng og leysti úr alls konar flækjum í hausnum á mér og gerði upp þetta og hitt úrlausnarefnið. Þetta var eins og mjög skilvirk þerapía (sem öll náttúrudvöl er reyndar).“

Hópurinn gekk saman á Kilimanjaro fyrir fimm árum.
Hópurinn gekk saman á Kilimanjaro fyrir fimm árum.

Hver var helsta áskorunin á leiðinni?

„Hæsti punktur göngunnar er 4.215 metrar, lokaspretturinn þangað upp var svolítil áskorun. Loftið er orðið nokkuð þunnt og ég fann fyrir mildum hausverk og hvernig skrefin urðu þyngri. Við vorum svo heppin að ekkert okkar veiktist eða fann fyrir sterkari áhrifum hæðarinnar, enda var vel fylgst með líðan allra og súrefnismettun mæld á hverju kvöldi. Gangan var annars hækkun og lækkun á víxl, ekki bara upp á topp og niður. Mér fannst það sérstaklega skemmtilegt því gróður og lífríki breytist í takt við hæð og þannig höfðum við ólíka náttúru fyrir augunum á hverjum degi.

Annars fannst mér mesta áskorunin að þurfa að pakka niður og kveðja, það var langtum meira átak en prílið á toppinn.“

Inkaborgin Machu Picchu skýjum ofar í Andesfjöllum Perú í Suður-Ameríku.
Inkaborgin Machu Picchu skýjum ofar í Andesfjöllum Perú í Suður-Ameríku.



Hvað er gott að hafa í huga þegar maður leggur í svona langferðir úti í heimi?

„1. Líta á aðdragandann sem hluta ferðalagsins - mér finnst tilhlökkunin sérlega verðmæt, þegar eitthvað skemmtilegt er framundan sem endalaust er hægt að dreyma um, undirbúa, lesa sér til um, spjalla og fleira.

2. Það reddast eiginlega allt. Það þarf aldrei að vera með hvert einasta atriði á útbúnaðarlista eða vera í kraftfitness-últraþon formi lífs síns, við getum svo miklu meira og þurfum svo miklum minna en við höldum.

3. Takið meira en 10 daga til að heimsækja Suður-Ameríku í fyrsta sinn. Það er allt of stutt.“

Gestur fagnar áfanganum.
Gestur fagnar áfanganum.

Eru einhverjar svona stórar ferðir á döfinni hjá ykkur feðginum?

„Nokkur ævintýri á teikniborðinu en ekkert fast í hendi enn. Í sumar ætla ég að kajakróa og klifra. Pabbi ætlar að hlaupa og stunda þaraveiðar úr sjó. Svo mætumst við í fjallgöngum inn á milli og rifjum upp nýbakaðar Perúminningar.“

Gestur er mikill fjallagarpur, en til gamans má geta að …
Gestur er mikill fjallagarpur, en til gamans má geta að hann varð áttræður á síðasta ári.
Útsýnið á göngunni var stórbrotið.
Útsýnið á göngunni var stórbrotið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert