Hvar er ódýrast að baða sig?

Það er kannski ódýrara að fara í sund, en það …
Það er kannski ódýrara að fara í sund, en það er vænni fengur fyrir Instagram að fara í baðlaug. Samsett mynd

Nú þegar ferðasumarið mikla 2022 er að hefjast er sniðugt að vera ábyrgur neytandi og kanna hvar ódýrast er að skella sér í bað. Sundlaugar landsins eru auðvitað langódýrustu staðirnir til að skola af sér rykið ef maður er á ferðalagi um landið en sumir kjósa þó aðeins notalegri stund í fjölbreyttum baðlaugum landsins.

Blaðamaður ferðavefsins fór á stúfana og kannaði hvað venjulegur aðgöngumiði fyrir einn fullorðinn kostar í helstu baðlaugum landsins. 

Laugarvatn Fontana Spa er ódýrasta baðlaugin í sumar. Þar kostar miðinn fyrir einn fullorðinn 3.950 krónur. Dýrast er að baða sig í Bláa lóninu en þar kostar ódýrasti miðinn 10.990 krónur. 

Laugarvatn Fontana Spa 3.950 kr.

Laugarvatn Fontana Spa er að finna við Laugarvatn og eru þau hin fullkomnu böð fyrir þau sem elska gufuböð. 

Laugarvatn Fontana Spa.
Laugarvatn Fontana Spa. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Krauma 4.900 kr.

Krauma í Borgarfirði er næstódýrasta baðlaugin en miði ofan í kostar aðeins tæpar fimm þúsund krónur. Í laugunum í Kraumu er vatn lóðbeint úr Deildartunguhver sem staðsettur er steinsnar frá. Vatnið er svo kælt með vatni undan öxlum Oks. 

Krauma í Borgarfirði.
Krauma í Borgarfirði.

Sjóböðin á Húsavík 5.400 kr.

Miði fyrir einn fullorðinn í Sjóböðin á Húsavík kostar nú 5.400 krónur, en heimamenn segja að útsýnið sé svo sannarlega hverrar krónu virði. Fallegt útsýni er yfir Skjálfandaflóa úr böðunum og á góðviðrisdögum er hægt að sjá alla leið út í Flatey og jafnvel sjá hvali leika sér í kringum hvalaskoðunarbátana.

Sjóböðin á Húsavík.
Sjóböðin á Húsavík. Ljósmynd/Aðsend

Skógarböðin 5.990 kr.

Hin glæsilegu Skógarböð eru nýjustu böð landsins. Böðin opnuðu í lok maí en þau eru staðsett við rætur Vaðlaheiðar í Eyjafirði og í þeim er heitt vatn sem uppgötvaðist þegar borað var fyrir Vaðlaheiðargöngum. Böðin hafa þá sérstöðu að vera umvafin þéttvöxnum skógi, sem er ekki að finna á hverri þúfu á landinu. Miði fyrir einn fullorðinn kostar 5.990 krónur.

Skógarböðin í Eyjafirði.
Skógarböðin í Eyjafirði. Aðsend/Axel Þórhallsson

Vök Baths 5.990 kr.

Vök Baths er að finna í grennd við Egilsstaði og hafa á síðustu árum orðið einn vinsælasti áfangastaður á Austurlandi. Jarðhit­inn í Urriðavatni upp­götvaðist á sín­um tíma þegar ákveðnar vak­ir, svo­kallaðar Tusku­vak­ir, héldu sér á vatn­inu, sama hvernig frysti. Til að tengja nátt­úru­laug­arn­ar bet­ur við sögu staðar­ins eru Vak­irn­ar aðalkenni­merki Vök Baths en það eru tvær laug­ar sem fljóta á vatn­inu.

Vök Baths.
Vök Baths.

Sky Lagoon 6.990 kr.

Á Kársnesi í Kópavogi er að finna eina glæsilegustu baðlaug landsins en hún opnaði á síðasta ári. Þrátt fyrir að vera aðeins eins vetrar gömul er hún ein sú vinsælasta í dag. Miði fyrir einn fullorðinn kostar 6.900 krónur.

Sky Lagoon á Kársnesi.
Sky Lagoon á Kársnesi. mbl.is/Sky Lagoon

Bláa lónið 10.990 kr.

Bláa lónið er stundum nefnd drottning baðlauga á Íslandi. Það er nafn með rentu enda er allt til alls í Bláa lóninu og gott betur. Í sumar kostar miði fyrir einn fulorðinn 10.900 krónur og segja margir að miðinn sé hverrar krónu virði þrátt fyrir að Bláa lónið sé dýrasta baðlaugin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka