Seldi húsið og flúði veðrið til Mexíkó

Jóna María Norðdahl fór til Mexíkó í vetur.
Jóna María Norðdahl fór til Mexíkó í vetur. Ljósmynd/Aðsend

Jóna María Norðdahl kom heim frá Mexíkó í apríl eftir þriggja vikna ferðalag. Jóna María fór í þrjár flugvélar til að komast alla leið til Tulum í Mexíkó en það var algjörlega þess virði. Ferðin var draumur í dós eftir erfiðan vetur á Íslandi. 

Aðspurð segist Jóna María ekkert sérstaklega vön því að fara í ferðalög á framandi slóðir en hefur þó farið tvisvar sinnum til Balí. „Þetta var í fyrsta skipti sem ég pantaði miðana alveg sjálf, alla þessa leið. Þetta er langt ferðalag og margar flugvélar sem reyndar raðast upp þegar maður pantar. En samt, ég er viss um að sumir sjá það fyrir sér sem mikla hindrun.“

Jóna María flaug til London, þaðan til Lissabon og áfram til Cancun í Mexíkó þaðan sem hún tók leigubíl til Tulum. Hún segir að það hafi gengið vel að komast alla leið. 

Ströndin heillaði í vonda veðrinu í vetur.
Ströndin heillaði í vonda veðrinu í vetur. Ljósmynd/Aðsend

Dreymdi um sól í íslenskum stormi

Jóna María fékk hugmyndina frá íslenskri stelpu sem dvaldi í vetur í Tulum. „Ég var búin að fylgjast með henni á Instagram. Ég var að selja húsið mitt og afhenti það í mars. Ég var í söluferli og var ekki búin að fá afhent. Ég var farin að velta fyrir mér hvort ég þyrfti að fara að leigja í gegnum Airbnb,“ segir Jóna María. Einn morguninn sat hún og hugleiddi í enn einum storminum og fékk þá frábæra hugljómun að skella sér bara í sólina og plataði vinkonu sína með sér. 

Jóna María segir staðinn Azulik í Tulum vera dásamlegan.
Jóna María segir staðinn Azulik í Tulum vera dásamlegan. Ljósmynd/Aðsend

„Við fórum í loftið í miklum byl. Það var búið að vera lokað á flugvellinum,“ segir Jóna María sem hafði mjög gott af sólinni. „Sérstaklega eftir að hafa verið að standa í að selja og flytja, vera í mjög miklu álagi. Fara svo í sólina og vera og upplifa. Ég finn mjög mikið fyrir því í dag. Ég vil frekar fara í ferðalög sjaldnar og vera lengur. Ég vil vera í meira hæglæti. Ég þarf ekki endilega að sjá allt og fara allt,“ segir Jóna María. 

„Ég mæli með því að fara í burtu. Þrjár vikur er frábært, fjórar vikur ef fólk getur af því þetta er langt ferðalag.“

Upplifði nýja menningu í Tulum

Jóna María og vinkona hennar leigðu sér íbúð á Airbnb í hverfinu La Veleta í Tulum. „Tulum er mjög nálægt ströndinni. Það tekur 45 mínútur að ganga niður á strönd, það er líka hægt að hjóla eða taka leigubíl á ströndina. Þú getur líka gist á ströndinni en þar er hverfi með hótelum, búðum, matsölustöðum og skemmtistöðum. Fólk getur skemmt sér þarna ef það vill.“

Þrátt fyrir að hótelin og ströndin minni að nokkru leyti á hefðbundin sumarleyfissvæði leggur Jóna María áherslu á að það sé hægt að upplifa aðra hluti í Mexíkó.

„Það eru þarna vatnslindir út um allt sem eru kallaðar Cenotes. Þetta eru miklar náttúruperlur. Það eru líka fallegir hellar. Það er hægt að skoða sögu Maja,“ segir Jóna María. Hún segir einnig staðinn Azulik vera í Tulum þar sem fólk kemur alls staðar að úr heiminum til að gifta sig. 

Jóna María segir að í Mexíkó sé borin virðing fyrir …
Jóna María segir að í Mexíkó sé borin virðing fyrir náttúrunni. Ljósmynd/Aðsend

Bátsferð sem Jóna María fór í stóð upp úr í ferðinni. Hún sigldi um Sian Ka'an og inn í skóginn. „Við keyrðum löturhægt inn í skóginn á holóttasta vegi sem ég hef nokkurn tíma keyrt á. Þar komum við að bryggju og þar var farið með okkur í magnaða bátsferð. Það var alveg geggjað. Lokaáfangastaðurinn var hvít strönd og fórum á eyju sem var eins og að fara á eyðieyju einhvers staðar á enda veraldar. Við syntum í sjónum, nutum náttúruaflanna og tókum myndir,“ segir Jóna María. 

„í Tulum eru moldarvegir. Þú gengur á moldarvegum alla daga. Mörg húsin eru bara einhverjir kofar en svo eru líka lúxushús, allur skalinn. Þeir er svo skemmtilegt hvernig þeir virða náttúruna. Ef það er tré einhvers staðar þá rífa þeir það ekki til þess að setja veginn. Þeir setja veginn fram hjá. Þeir setja tré inn í húsin.“ 

Jóna María borðaði góðan mat í Mexíkó.
Jóna María borðaði góðan mat í Mexíkó. Ljósmynd/Aðsend

Hvað fannst þér skemmtilegast við ferðina?

„Það er svo margt. Mér finnst alltaf rosa gaman að upplifa aðra menningu og sjá hvernig fólk býr. Þrátt fyrir að þetta sé auðvitað svolítill ferðamannastaður þá eru rosa margir flottir veitingastaðir og kaffihús. Þú getur valið mexíkóskan eða evrópskan mat,” segir Jóna María sem mælir með mexíkóska matnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert