Birgir Jónsson forstjóri flugfélagsins Play er staddur í New York en fyrsta flug félagsins á Stewart flugvöllinn var farið á fimmtudaginn var. Hann er bjartsýnn og segir að ferðasumarið fari vel af stað.
Stewart flugvöllurinn í New York heillaði Birgir vegna stærðarinnar en hann er lítill og sveitalegur. Þegar lent er á flugvellinum tekur stuttan tíma að komast í gegn. Fólk sem vill komast inn á Manhattan getur tekið rútu sem ekur með farþega inn á miða Manhattan. New York Stewart er þriðji áfangastaður Play til Bandaríkjanna en félagið flygur til Boston og Baltimore/Washington. Birgir segir að þetta sé síðasti áfangastaður Play í Bandaríkjunum. Allavega í bili.
„Þetta er risastór áfangi og það er ekki lítið mál að hefja flug á nýjan áfangastað, sérstaklega í Bandaríkjunum,“ segir Birgir. Þegar hann er spurður að því hverjir munu nýta sér þetta flug segir hann að það séu bæði Íslendingar og fólk sem vill geta ferðast ódýrt.
„Við erum fyrst og fremst að horfa til þeirra milljóna manna sem búa á svæðinu í kringum flugvöllinn og einnig fólks í Evrópu sem vill komast ódýrt til New York. Þá er New York auðvitað alltaf vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga og nú erum við að bjóða upp á þennan nýja valkost,“ segir hann.
Þegar flugið var kynnt höfðu einhverjir neikvæðir orð á því að þessi flugvöllur væri langt í burtu. Birgir var hinsvegar aldrei í vafa um að þetta væri málið.
„Eftir að hafa farið á staðinn og kannað aðstæður var ég ekki í nokkrum vafa um að þetta væri málið. Þetta er lítill flugvöllur og Play er nú eina félagið sem er með millilandaflug þarna. Það hefur þá kosti í för með sér að allt gengur hratt fyrir sig, litið er um raðir og svo er rúta sem fer til og frá flugvellinum niður í miðbæ Manhattan. Rútan tekur um klukkutíma og 20 mínútur. Svo býður svæðið í kringum völlinn upp á margt; ýmsa afþreyingu,
frábæra outlet-verslunarmiðstöð og fleira,“ segir hann og er þá á að vísa í Woodbury Common outlettið sem er eitt af þessum stöðum sem bjóða upp á merkjavöru eins og Gucci, Fendi, Balmain og Off White svo einhver merki séu nefnd.
Birgir segir að heimilislega stemningin á Stewart flugvelli eigi vafalaust eftir að trekkja að.
„Við að fljúga þarna sjálfur þá sér maður strax hvað það er að flestu leyti mikið þægilegra að koma á minni og einfaldari flugvöll,“ segir hann.
Íslendingar eru ekki þekktir fyrir að vera mikið fyrir rútuferðir. Hafðir þú og þið hjá Play engar áhyggjur af því að rútan myndi gera það að verkum að fólk væri minna spennt fyrir þessum áfangastað?
„Nei, auðvitað var maður hugsi þar sem þetta er nýtt en um leið og maður prófar þetta finnur maður að það er ekki teljandi munur a heildarupplifuninni miðað við aðrar leiðir inn á Manhattan,“ segir hann.
Er þetta kannski bara svipuð stemming og þegar erlendir ferðamenn lenda í Keflavík?
„Mjög sambærilegt. Heildartíminn frá þvi að maður lendir og er kominn inn i bæ er mjög svipaður.“
Síðan fyrsta flug Play lenti á Stewart hefur Birgir mætt í fjölmörg viðtöl í erlendu pressunni. Þegar hann er spurður að því hvað amerískir miðlar hafi mestan áhuga á nefnir hann verðið á farmiðunum.
„Þeir hafa allir mikinn áhuga á Play. Virkilega samkeppnishæf fargjöld vekja alltaf mikla athygli og bandarískir miðlar veita lesendum sinum samviskusamlega þær upplýsingar að oftar en ekki sé Play besti díllinn,“ segir hann.
Þegar hann er spurður út í ferðasumarið er hann bjartsýnn.
„Ferðasumarið verður geggjað! Bókunarstaðan er mjög sterk og við erum sjúklega spennt fyrir sumrinu,“ segir hann.