Helgina 24. til 25. júní verður mikið fjör á Norðurlandi þegar Midnight Sun Whitewater hátíðin verður haldin eftir tveggja ára hlé. Hátíðin hefst með miðnæturflúðasiglingu niður ævintýraleg gljúfur Jökulsá-Austari, sem fæstir hafa upplifað að nóttu til. Flúðasigling er mikil skemmtun, en þegar siglt er niður ána blasir stórbrotin skagfirsk náttúra við.
Þeir Anup Gurung og Mirto Menghetti sjá um að skipuleggja hátíðina. Þeir segja dagskrána sérlega góða í ár. „Þetta verður hasarfull sumarsólstöðuhelgi með lifandi tónlist, frábærum mat, útilegu, verðlaunum og æsilegum keppnum.“
Á hátíðinni fer fram hin vinsæla Fire & Ice-keppni, sem er stærsti alþjóðlegi kajaksiglingaviðburður Íslands. Keppnin hefst í Hörgá, og lýkur í Barká, þar sem atvinnumennirnir sigla niður fossa.
Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna á heimasíðu Viking Rafting.