Sjóböðin í Hvammsvík opna um helgina

Sjóböðin í Hvammsvík í Hvalfirði opna um helgina. Verkefnið er …
Sjóböðin í Hvammsvík í Hvalfirði opna um helgina. Verkefnið er hugarfóstur Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra flugfélagsins Wow Air.

Sjóböðin í Hvammsvík í Hvalfirði opna formlega nú um helgina, laugardaginn 16. júlí. Verkefnið er hugarfóstur Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra Wow Air.

Verkefnið hefur átt sér langan aðdraganda en gamla náttúrulaugin í fjöruborðinu í Hvammsvík hefur verið vinsæl á meðal ferðamanna, sjósundsfólks og göngugarpa í tugi ára. Með opnum sjóðbaðanna hefur laugunum fjölgað og eru nú átta talsins með mismunandi hitastigi. Saga Hvammsvíkur er stórbrotin og nær allt aftur til landnáms þegar Hvamm-Þórir settist þar að og ýmsar minjar má finna á svæðinu. Hvammsvík er í aðeins 45 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík.

Skúli og fjölskylda spennt að opna

„Við fjölskyldan erum mjög spennt að opna sjóböðin fyrir gesti og leyfa sem flestum að njóta Hvammsvíkur með okkur. Það er fátt betra fyrir líkama og sál en að vera úti í náttúrunni og njóta. Við segjum gjarnan að það sé ekki hægt að keppa við náttúruna og það á svo sannarlega vel við í Hvammsvíkinni. Það eru forréttindi að geta gengið hér upp um fjöll og firði í bakgarði Reykjavíkur og enda svo í heitum sjóböðum og jafnvel stungið sér í kaldan sjóinn. Við höfum verið ótrúlega heppin að vinna með frábæru fagfólki á öllum sviðum að því að gera þennan draum að veruleika og ég hlakka til að taka á móti gestum og bjóða þá velkomna í Hvammsvík Sjóböð,“ segir Skúli Mogensen stofnandi Hvammsvíkur Sjóbaða.

Sjóböðin í Hvammsvík opna á laugardag.
Sjóböðin í Hvammsvík opna á laugardag.

Öll uppbyggingin í Hvammsvík hefur tekið mið af nátturunni og sögunni sem er órjúfanlegur hluti af staðnum og þeirri einstöku upplifun sem þar er í boði. Um er að ræða átta misstórar og heitar náttúrulaugar sem liðast út í fjörðinn þar sem neðstu laugarnar birtast og hverfa til skiptis á flóði og fjöru. Hitastigið í þeim er því síbreytilegt eða allt frá um 39 gráðum niður í sjávarhita hverju sinni þegar þær fyllast af söltum sjó.

Öll böðin eru náttúrulaugar sem fæst með því að blanda saman 90 gráðu heitu jarðvarmavatni úr heitavatnsholu á svæðinu sem er blandað saman við sjóinn þannig að vatnið í böðunum er um einn þriðji jarðvarmavatn og tveir þriðju sjór. Gestir munu því finna vel fyrir seltunni í vatninu og að það er auðveldara að fljóta í söltu vatni. Gegnumstreymið í böðunum er mikið og hreinsa laugarnar sig allar á tveggja til þriggja tíma fresti án nokkurra hreinsiefna.

Neðstu laugarnar verða hlutfallslega með enn meira sjóvatn en þær munu jafnframt taka til sín þara og þang ásamt öðru lífríki sjávar.

Uppbyggingin hefur tekið mið af náttúrunni.
Uppbyggingin hefur tekið mið af náttúrunni.

Hönnun sjóbaðanna tók mið af náttúrunni og sögunni en þjónustuhúsið er byggt á gömlum braggagrunni frá stríðsárunum, einum af mörgum sem leynast í Hvammsvíkinni. Unnið var náið með innlendum hönnuðum og listamönnum. Má þar nefna Hrafnhildi Arnardóttur, Shoplifter, sem sérhannaði verk fyrir staðinn, Sonju Bent hjá Nordica Angan sem vann ilm og sápur út frá nærumhverfi Hvammsvíkur og Bjarna Viðar Sigurðsson sem vann keramik þar sem sandur Hvammsvíkurfjörunnar er notaður í glerunginn.

Laugarnar eru nú átta talsins.
Laugarnar eru nú átta talsins.

Sjóböðin verða opin daglega frá klukkan 11-22 og er 12 ára aldurstakmarkTil að tryggja sem besta upplifun fyrir gesti og varðveita náttúruna og umhverfið þá er allt svæðið girt af við þjóðveg og því verða gestir að bóka aðgang fyrirfram á heimasíðunni www.hvammsvik.is til að komast inn á svæðið. Gestir geta valið á milli inni eða útiklefa og jafnframt notið veitinga bæði inni og á útisvæði. Enginn takmörk er á því hversu lengi gestir geta dvalið í sjóböðunum eða notið náttúrunnar í Hvammsvík.

Séð yfir Sjóböðin í Hvammsvík.
Séð yfir Sjóböðin í Hvammsvík.
Gegnumstreymið í böðunum er mikið og hreinsa laugarnar sig allar …
Gegnumstreymið í böðunum er mikið og hreinsa laugarnar sig allar á tveggja til þriggja tíma fresti án nokkurra hreinsiefna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert