Stjórnendur skíðasvæðisins Suicide Six í Vermont í Bandaríkjunum hafa ákveðið að skipta um nafn á svæðinu. Heitir það nú Saskadena Six. Fyrra nafn þótti óviðeigandi og ónærgætið enda með tilvísun í sjálfsvíg. CNN Travel greinir frá.
Skíðasvæðið, sem er í grennd við South Pomfret, greindi frá þessum breytingum í lok júní og er nú verið að innleiða breytingarnar.
„Teymið sem vinnur hér á skíðasvæðinu fagnar aukinni umræðu um andlega heilsu og hefur í gegnum tíðina haft áhyggjur af sögulegu nafni svæðisins. Tilfinningarnar sem orðið sjálfsvíg kallar upp hafa mikil áhrif á marga í samfélaginu okkar,“ segir í færslu skíðasvæðisins á samfélagsmiðlum.
Nafnið Saskadena Six er fengið úr tungumál Abenaki ættbálksins sem á rætur sínar að rekja til svæðisins og táknar „hið standandi fjall“.
Í tilkynningu sagði Courtney Lowe, forseti Woodstock Inn & Resort sem rekur skíðasvæðið, að þau hafi vandað valið þegar kom að nýju nafni.
„Með því að nota upprunalegt tungumál staðarins, þá mun nafnið Saskadena Six heiðra sögu Abenaki ættbálksins og allar þær kynslóðir sem hafa elskað svæðið undanfarin 90 ár,“ sagði Lowe.
Saskadena Six er eitt elsta skíðasvæði Bandaríkjanna en þar var meðal annars fyrsta skíðalyfta landsins opnuð á fjórða áratug síðustu aldar.