Eyjarnar á Mýrunum í sérstöku uppáhaldi

Sigríður Heimisdóttir og Maríanna Garðarsdóttir eru búnar að vera vinkonur …
Sigríður Heimisdóttir og Maríanna Garðarsdóttir eru búnar að vera vinkonur lengi og eru hér á golfvellinum.

Maríanna Garðarsdóttir, forstöðumaður rannsóknaþjónustu Landspítalans, fann ástina í Borgarnesi og er því með annan fótinn þar, þótt hún búi í Reykjavík. Hún segir að fegurðin í Borgarfirðinum sé engu lík og þar sé til að mynda góður golfvöllur sem hún ver miklum tíma á. 

„Ég hef verið svo heppin að fara vítt og breitt um Vesturland og þekki þar orðið marga króka og kima, enda hef ég haft góða leiðsögn. Fjölbreytnin er mikil í landslaginu, fegurðin endalaus og afþreying næg. Góðar sundlaugar eru víða. Hreppslaug er í uppáhaldi og svo náttúrulaugar, eins og til dæmis í Landbroti og Rauðamelslaug. Ég kom í Berserkjahraun á Snæfellsnesi í fyrsta sinn í fyrra. Það var mjög gaman að sjá og minnir mann á að það eru fallegir staðir víða sem vert er að heimsækja og jafnvel dvelja á, þótt ekki sé nema í stutta stund og njóta dagsins,“ segir Maríanna.

Hún segir að Borgarnes og Borgarfjörðurinn hafi komið henni á óvart, þegar hún fór að verja meiri tíma á svæðinu.

„Borgarfjörðurinn er minn uppáhaldsstaður og má nefna sérstaklega eyjarnar á Mýrunum með miklu fuglalífi. Svo er Stykkishólmur í sérstöku uppáhaldi, sem ég kynntist vel sem barn. Í Stykkishólmi er sérlega skemmtilegur golfvöllur sem gaman er að spila á og þar er alltaf gott veður. Borgarnes hefur líka komið mér skemmtilega á óvart, sem fallegur og vinalegur bær. Þar held ég sérstaklega upp á Skallagrímsgarð, sem er fagur og kyrrlátur staður. Þar er líka líf og fjör á bæjarhátíðum. Bjössaróló er gaman að heimsækja, bæði fyrir börn og fullorðna, og svo eru sögustaðir úr Egils sögu á hverju horni. Það eru skemmtilegar gönguleiðir í Borgarnesi meðfram ströndinni og eftir einn slíkan göngutúr er tilvalið að setjast niður á Kaffi Kyrrð í Blómasetrinu. Þeir sem þekkja mig vita að ég ver allnokkrum tíma á golfvellinum á Hamri en hann er að mínu mati fallegasti völlur landsins. Síðast má nefna fjöruna við Seleyri þar sem oft má sjá veiðimenn og fjöruna við Hafnarskóg. Hún er mjög falleg og gaman að ganga þar,“ segir hún.

Slakað á.
Slakað á.

Hvar er besti maturinn á Vesturlandi?

„Besti maturinn í Borgarnesi er í Englendingavík og á Landnámssetrinu. Það er gaman að heimsækja leikfangasafn Soffíu og landnámssýninguna í leiðinni. Svo eru bestu pylsurnar í skálanum hjá Braga við Deildartunguhver. Annar góður áfangastaður er svo í Hraunsnefi. Þar er boðið upp á ljúffengan mat frá sjálfbæru býli og Hreðavatnsskáli, sem er rétt hjá, er frábær áfangastaður fyrir barnafjölskyldur. Í Stykkishólmi er Narfeyrarstofa í uppáhaldi. Á Arnarstapa er landsins besti fiskur og franskar hjá sómahjónunum Helgu og Óla á veitingahúsinu Stapanum. Þar er alltaf logn á pallinum og góðar móttökur.“

Þú lifir nú eiginlega tvöföldu lífi, býrð bæði í Reykjavík og í Borgarnesi. Hvað gerir þú í bílnum á leiðinni á milli staða?

„Ég hlusta mikið á útvarpið og stundum hljóðbækur og nota svo tímann til að hringja símtöl sem þurfa góðan tíma. Ég skipti alltaf leiðinni í þrjá hluta, að göngum, göngin og svo eftir göngin. Þá finnst mér leiðin aldrei löng, enda er hún alltaf klukkutími frá húsi til húss og auðvitað alltaf farin á löglegum hraða! Umferðin hefur aukist mikið og því þýðir lítið að flýta sér. Landslagið er aldrei eins og ég keyri oft snemma á morgnana til vinnu í Reykjavík. Þá finnst mér sérstaklega fallegt að horfa á Botnssúlur þegar sólin skín á tindana og Hafnarfjall er alltaf glæsilegt, sama hvernig viðrar.“

Hvað kom þér mest á óvart þegar þú kynntist Vesturlandi betur?

„Fjölbreytnin og fegurðin kom mér mest á óvart eins og ég hef áður nefnt og er góð áminning um að njóta stundarinnar og horfa vel í kringum sig. Það er líka mikilvægt að lesa sér til um umhverfið og skoða það sem fyrir augu ber. Allra best er auðvitað að hafa með sér fróðan leiðsögumann sem þekkir vel til staðhátta og jafnvel spyrja heimafólk um áhugaverða og fallega staði sem leynast út um allt.“

Hvert er best geymda leyndarmálið á Vesturlandi?

„Berserkjahraun er alger paradís og auðvitað allt Snæfellsnesið. Þar má nefna Djúpalónssand og Lóndranga. Fyrir þá sem hafa gaman af hestamennsku er stórkostlegt að ríða um Löngufjörur og þá mæli ég með túr frá Lýsuhóli. Mér finnst alltaf gaman að ganga um fjöruna á Hellnum og setjast svo niður við Fjöruhúsið. Þá er gaman að heimsækja Rauðamelsölkeldu og Gerðuberg, þar sem er fallegt stuðlaberg. Ég myndi endilega fara í ævintýrasiglingu um Breiðafjörðinn með Sæferðum í Stykkishólmi og ekki sleppa því að smakka sjávarfangið sem veitt er í ferðinni! Fyrir yngra fólk, sem man ekki eftir lífi fyrir göng, mæli ég með ferð um Hvalfjörð og Kjósina. Í Botnsdal eru skemmtilegar gönguleiðir og fossinn Glymur,“ segir Maríanna.

Hvað mælir þú með að fólk geri sem vill gera sér glaðan dag á þessu svæði?

„Það eru frábær tækifæri til útivistar víða, golf á Hamri og þar er Icelandair Hotel Hamar, hvar hægt er að gista eða njóta góðra veitinga eftir golfhringinn. Útivistarsvæðið í Einkunnum er skammt undan fyrir þá sem vilja ganga í grónu umhverfi. Svo er auðvelt að ganga á Grábrók og útsýnið þaðan er stórkostlegt. Þá mæli ég með að heimsækja fossinn Glanna, ganga niður í Paradísarlaut og jafnvel baða sig þar. Svo eru auðvitað mörg glæsileg fjöll til að ganga á í Borgarfirði, svo sem Hafnarfjall, Skessuhorn og Baula. Ekki má sleppa því að stoppa við Hraunfossa á leiðinni upp í Húsafell og þar er notalegt kaffihús. Gaman er að koma í Surtshelli í Hallmundarhrauni. Víða eru líka sundlaugar til að slaka á í eftir góða gönguferð eða fjallgöngu. Fyrir þá sem vilja smá lúxus er hægt að fara í Kraumu eða jafnvel Giljaböðin í Húsafelli og svo gista á Hótel Húsafelli og þar er líka hægt að spila golf.“

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Í sumar ætla ég að vera í Borgarfirðinum og í Stykkishólmi og svo á Akureyri. Þar verður spilað golf og örugglega á fleiri stöðum á leiðinni, til dæmis á Sauðárkróki. Væntanlega verða farnir skemmtilegir túrar um nærsveitir þessara staða og svo vonast ég líka til að njóta einhverra daga í fjölskyldubústaðnum á Þingvöllum en það er einn af mínum uppáhaldsstöðum á landinu,“ segir Maríanna.

Er einhver staður á Íslandi sem þig dreymir um að heimsækja?

„Mig dreymir um að heimsækja Stuðlagil, sem ég náði ekki að sjá í síðustu ferð austur á land. Þá fórum við inn á Möðrudalsöræfi en ég á enn eftir að koma inn að Herðubreiðarlindum og Öskju. Tveir staðir sem mig dreymir um að heimsækja að fjallabaki eru annars vegar Rauðibotn og hins vegar Rauðauga.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert