Að keyra Vestfirði ekki fyrir óþolinmóða

Anna Sigrún Haraldsdóttir.
Anna Sigrún Haraldsdóttir.

Arna Sigrún Haraldsdóttir, markaðsstjóri Parka, myndi heimsækja allar náttúrulaugar á Vesturlandi í draumaferðalagi sínu um landsvæðið. 

Arna er meðeigandi Sambúðarinnar og eigandi modibodi.is.

Hún er alltaf með mörg járn í eldinum og leggur nú mesta áherslu á að innleiða og aðstoða eigendur tjaldsvæða við að komast í Parka Camping-bókunarvélina.

„Ég er þess vegna að ferðast svolítið um landið og hitta eigendur tjaldsvæða sem eru að koma inn í Parka Camping núna og líka heilsa upp á þá sem hafa verið með í þessu síðan í fyrra. Ég vildi endilega reyna að splæsa saman vinnuferð og fjölskyldufríi svo ég húrraði allri fjölskyldunni með mér á Vestfirði, þar sem ég þurfti að heimsækja nokkur tjaldsvæði,“ segir Arna.

Lætur góðar hugmyndir gerast

Þegar Arna var ólétt að dóttur sinni, ákvað hún að næla sér í umboð fyrir Modibodi-túrnærbuxur og opnaði netverslun nokkrum dögum áður en barnið fæddist.

„Ég hef rekið þá verslun í rúm fjögur ár. Stuttu síðar opnaði ég, í félagi við þrjár aðrar konur, verslunina Sambúðina, en við vorum allar með netverslanir sem selja umhverfisvænar vörur. Okkur fannst sniðugt að sameina krafta okkar og opna eina búð saman. Síðan þegar Covid skall á, urðu miklar tafir í verksmiðjunni sem framleiðir Modibodi og okkur dreifingaraðilunum voru skammtaðar birgðir. Í þannig ástandi var ómögulegt fyrir mig að lifa á þessu svo ég tók að mér starf markaðsstjóra Parka. Það hefur nú svolítið tekið yfir mitt daglega líf, enda er Parka spennandi fyrirtæki í miklum vexti.

Flestir þekkja Parka sem bílastæðaapp en við erum líka með Parka Camping sem er bókunarvél fyrir tjaldsvæði. Ég er mjög hrifin af þeirri vöru, enda gæti ég ekki hugsað mér að keyra með fjölskylduna frá Reykjavík þvert yfir landið, ætla mér að tjalda einhvers staðar og fá svo kannski ekki pláss. Síðan eru líka margir mjög háðir því að geta komist í rafmagn og vilja geta tryggt sér það. Kerfið hentar líka þeim sem eru spontant og mæta bara á svæðið en þeir geta bara skráð sig inn og greitt með sjálfsafgreiðslu,“ segir hún.

Hvað með áhuga þinn á Vesturlandi?

„Fyrir mér er mjög sérstakt að heimsækja Vestfirði, en ég gef mér sjaldan tíma í svona langt ferðalag.“

Jurtalitun vekur áhuga hennar

Hvert mælir þú með að fara í heimsókn þangað?

„Rauðisandur er stórkostlegur staður sem ég hef heimsótt nokkrum sinnum. Þar er hægt að tjalda á tjaldsvæðinu Melanesi. Mér finnst líka gaman að fara til Hólmavíkur og skoða Galdrasafnið. Nábrækurnar eru náttúrlega nokkuð sem allir þurfa að sjá en mér finnst samt tilberarnir ógeðfelldastir. Sundlaugin og potturinn við Gvendarlaug eru æði og þar er notalegt og skjólsælt tjaldsvæði. Af því að ég bý í Reykjavík finnst mér líka oft voða mátulegt ferðalag að skreppa á Snæfellsnes. Svæðið í kringum Arnarstapa er svo fallegt og margt hægt að gera, eins og að fara í hellaskoðun eða bara skoða Búðakirkju,“ segir Arna.

Þegar kemur að textíl og hönnun, þá er Arna mjög áhugasöm um jurtalitun.

„Ég er gríðarlega áhugasöm um alla jurtalitun og finnst þess vegna gaman að sjá jurtalitað band. Hjá Ullarsetrinu á Hvanneyri er hægt að skoða ýmislegt skemmtilegt, meðal annars jurtalitaða ull. Mér finnst svo merkilegt að til dæmis lúpína gerir skærgulan lit og avókadó gerir bleikan,“ segir hún.

Hvernig væri draumaferðalagið þitt um þennan landshluta?

„Draumaferðalagið mitt um Vesturland væri það sem ég hefði nægan tíma til að heimsækja allar náttúrulaugarnar!“

Er eitthvað sem þú mælir með að fólk forðist á þessum slóðum?

„Vegurinn niður að Rauðasandi er ekki fyrir bílhrædda. Að keyra Vestfirði er heldur ekki fyrir óþolinmóða. Það getur alveg tekið á taugarnar að keyra firðina fram og til baka þegar manni finnst að það væri næstum hægt að hoppa yfir,“ segir Arna brosandi og bætir við:

„Við erum svo heppin að eiga heima á þessu landi. Þó ég sé mjög mikið borgarbarn, þá finnst mér dásamlegt að heimsækja landið mitt og skoða náttúruna. Ég held að það besta sem hafi gerst í Covid hafi verið að þá gátum við farið á vinsæla ferðamannastaði og verið eina fólkið á svæðinu. Ég fór til dæmis að Geysi með fjölskyldunni og þar var enginn nema við, einhverjir starfsmenn og einn lítill hópur. Síðan fórum við að Gullfossi og vorum eina fólkið á svæðinu. Hversu magnað er það, að fá einkasýningu á Gullfossi? Það er nokkuð sem ég held að muni aldrei aftur gerast,“ segir Arna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert