Perla Magnúsdóttir, leiðsögukona, hefur mikla unun af því að að vera úti í náttúrunni og upplifa undrin sem í henni búa. Perla er gestur Berglindar Guðmundsdóttur í Dagmálaþætti dagsins en þar ræða þær helstu náttúruperlur Íslands og hversu auðvelt það er að koma sér í útivistargírinn með réttu hugarfari, þrátt fyrir breytilegt veðurfar.
„Að fara út að ganga í rigningu, það er einstakt. Það kviknar á öllum gróðrinum, það er oft svo mikil kyrrð sem kemur, lyktin og loftið er einhvern veginn sérstaklega ferskt og þetta er bara eins og að fara í eitthvað rándýrt spa eða þrefaldan sálfræðitíma.“ Þannig lýsir Perla þeirri nautn sem hún hefur upplifað á gönguferðum í súld og suddaveðri og sennilega geta margir tengt við upplifun hennar.
Perla segir fátt skemmtilegra en að fara í gönguferðir í góðu veðri en tekur það fram að allt veður geti verið góð veður með réttu hugarfari.
„Það er eiginlega alveg fáránlegt hvað þetta gerist oft. Maður mætir á staðinn og veðrið er bara alls ekki jafn slæmt og spáin sagði til um og það er samt bara ógeðslega gaman,“ segir Perla sem hefur staðið sjálfa sig að því að skoða þrjár mismunandi veðurspár og svekkja sig á þeim rétt fyrir áætlaðar ferðir.
„Ég var að koma úr Þórsmörk núna um helgina og var búin að vera að skoða þrjár veðurspár. Ein var frekar ömurleg, ein var „lala“ og ein var nokkuð góð og þessi nokkuð góða rættist,“ segir Perla, sem viðurkenndi að hafa eytt of miklum tíma í að horfa í verstu mögulegu veðurhorfurnar.
Perla Magnúsdóttir er gestur Berglindar Guðmundsdóttur í Dagmálum dagsins. Viðtalið við hana má sjá í heild sinni hér.