Var 16 ára á fyrstu Þjóðhátíðinni sinni

Sóli Hólm á ferðalagi með fjölskyldunni.
Sóli Hólm á ferðalagi með fjölskyldunni.

Skemmtikraftinum Sóla Hólm er margt til listanna lagt, en hann hefur eytt megninu af sumrinu í að leggja sérlega fallegt fiskibeinaparket á heimili sínu. Þeir sem þekkja til vita að það er ekkert grín að leggja slíkt parket, en Sóla hefur tekist vel til og ef veður leyfir ætlar hann að fagna afrakstrinum með því að skella sér út á land með fjölskyldunni yfir verslunarmannahelgina. 

Hvert ertu búinn að ferðast í sumar?

„Þegar þú spurðir mig þá hugsaði ég með mér að ég væri lítið búinn að ferðast í sumar þar sem ég hef verið bundinn við parketlögn. Engu að síður er ég búinn að fara til New York, Alicante, Patreksfjarðar, Vestmannaeyja, Vopnafjarðar, Búðardals, Eskifjarðar og norður á Strandir.“

Hvernig ferðalögum hefur þú gaman af?

„Innanlands þykir mér skemmtilegast að hengja fellihýsið aftan í 18 ára gamla Ford Explorerinn minn og biðja að heilsa. Það gerist samt alltof sjaldan.“

Hvað ætlarðu að gera um verslunarmannahelgina?

„Það er ekki alveg neglt en líklega förum við eitthvert með fellihýsið. Miðað við veðurspánna þá er þó enn líklegra að við verðum bara heima.“

Hver er besta minningin sem þú átt frá verslunarmannahelgi?

„Ég hugsa að það sé bara fyrsta Þjóðhátíðin sem ég fór á 16 ára gamall. Kannski ekki minning samt því alla helgina var ég í hálfgerðu óminnisástandi.“

Hverju má alls ekki gleyma í ferðalagið?

„Hlýjum fötum, gaskút og góða skapinu.“

Hvað hefur staðið upp úr í sumar?

„Það var heimsókn til hennar Rebekku sem er með dýragarð á Hólum skammt frá Búðardal. Þar eru meðal annars geitur sem kunna allskyns hundakúnstir og talandi Krummi svo fátt eitt sé nefnt. Svo er Rebekka sjálf svo skemmtileg að þetta var frábær upplifun fyrir börn sem og fullorðna. Svo voru Strandir einstaklega fallegt svæði sem ég ætla að heimsækja aftur sem fyrst.“

Fjölskyldan í stuði ásamt brosmildri geit á Hólum.
Fjölskyldan í stuði ásamt brosmildri geit á Hólum.

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Nei, ég er eiginlega enn að leita. Hveragerði og Ölfus eiga samt alltaf sinn stað í mínu hjarta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert