Listakonan Jonna Jónborg Sigurðardóttir á heiðurinn af óvenjulegum útilistaverkum sem prýða ruslatunnur í miðbæ Akureyrar. Verkin hafa verið afar vinsælt myndefni hjá ferðafólki sem keppist við að mynda sig með rusladöllunum og deila á samfélagsmiðlum.
Verkin eru gerð úr ull sem Jonna þæfir. Því þola skúlptúrarnirvel íslenska veðráttu. Verurnar eru mjög ólíkar í útliti. Sumar minna á raunveruleg dýr, aðrar eru úr einhverjum ævintýraheimi. Ruslaveran sem er á leið til Grímseyjar minnir til dæmis á lunda og sú sem verður sett upp í Hrísey minnir á rjúpu. „Þetta lífgar upp á umhverfið yfir sumartímann. Fólki finnst þetta skemmtilegt, enda alltaf gaman að rekast á eitthvað óvænt á ferð sinni um bæinn. Ég veit líka um heimafólk sem fer sérstaklega í göngutúra til þess að skoða ruslaverurnar, því það er mjög gaman fyrir börn að gefa svöngu ruslaverunum rusl að borða,“ segir Jonna.
Sjálf segir Jonna að sér þyki alltaf skemmtilegt að ramba óvænt á útilistaverk á húsgöflum á ferðum sínum erlendis eða láta koma sér á óvart með einhverju sem gleður augað. Það sama á við um ruslaverurnar. Þær hafa algjörlega slegið í gegn hjá ferðafólki, sem myndar sig gjarnan með þeim. „Það er kannski frekar óvenjulegt að fólk fari í ferðalag og komi heim með myndir af rusladöllum,“ segir Jonna kímin. Einhverjir hafa þó farið heim með eitthvað fleira en myndir af ruslaverunum því tveim ruslaverum var stolið nýlega. Jonnu finnst það miður enda liggur mikil vinna á bak við hvert verk. Hún reynir þó að horfa á björtu hliðarnar, enda hlýtur það að teljast heiður fyrir listamann að listaverkum viðkomandi sé stolið.
Aðspurð um hvað sumarið beri í skauti sér, segist hún vera á leið til Ítalíu í fermingarferð með dóttur sinni. Þrjú ár eru síðan dóttirin fermdist en veiran setti strik í reikninginn. Þá ætlar hún að taka þátt í listahátíð á Alviðru í Dýrafirði og halda áfram að búa til fleiri kærasta, sem eru litlir prjónakarlar sem Jonna fór að framleiða fyrir óöruggar konur, sem finnst þær alltaf þurfa að eiga kærasta. „Þeir eru mjúkir og hljóðlátir. Þeir gera engar kröfur til þín og hægt er að taka þá með hvert sem er. Þetta er auðvitað platónískt samband en það er mjög praktískt að eiga svona kærasta.“