Íslensk flugfreyja segir að reglur um borð í flugvélum séu ekki til að gera farþegum grikk heldur séu þær til að vernda farþega og gæta öryggi þeirra.
Það er ástæða fyrir því að sætið á að vera upprétt í flugtaki, gluggaskermar opnir og borðið upprétt. Þetta er allt fyrir þitt eigið öryggi. Ef eitthvað kemur upp á og þú þarft að koma þér eins fljótt og auðið er út úr vélinni þá er aðgengið betra ef borð eru upprétt. Það sama á um farangur farþeganna.
Farangurinn þarf að vera vel undir sætinu eða í farangurshólfinu fyrir ofan sætin. Sætið á að vera upprétt til að vernda þig ef flugvélin þarf að bremsa skyndilega. Gluggaskermarnir eru opnir svo það sé hægt að sjá hvað sé að gerast fyrir utan vélina.
Beltið á að vera spennt á meðan þú situr
Ekki bara í flugtaki og lendingu, það getur alltaf komið óvænt ókyrrð og þá er best að þú sért bundin niður svo þú slasir ekki sjálfan þig eða aðra.
Passaðu hvar síminn þinn er
Ef þú missir símann þinn á gólfið fáðu þá aðstoð við að finna hann. Símar geta skapað eldhættu og það er betra að vita hvar þeir eru á meðan á fluginu stendur. Það sama á við spjaldtölvur og fartölvur.
Ekki veipa eða reykja inn á baði
Reykingar og veip setur flugöryggi vélarinnar í hættu. Þegar þú veipar eða reykir inn á baðherbergi fer viðvörunarbjalla í gang. Farþegi sem gerir þetta fær háa sekt sem viðkomandi þarf að greiða og auk þess setja sum flugfélög reykingamenn sem haga sér svona á bannlista hjá sér.
Sittu þangað til að sætisbelta ljósin fara af
Sætisbeltaljósin eru á fyrir þig. Þú þarft ekki að standa upp áður en vélin stoppar. Það tekur tíma að opna vélina og hleypa farþegum út. Mundu að þú kemst ekkert fyrr út þó þú standir strax upp. Stundum þurfa flugvélar að bremsa skyndilega og þá er ekki sniðugt að vera standadi. Íslenska flugfreyjan hefur séð þetta gerast oftar en einu sinni en sem betur fer hefur enginn slasast alvarlega ennþá.
Passaðu upp á eigur þínar
Ekki skilja verðmæti eftir á glámbekk þegar þú ferð úr sætinu þínu. Það er allskonar fólk með ýmsar hugmyndir sem þú flýgur með. Þú veist ekkert hvað þeim gæti dottið í hug að taka ófrjálsri hendi. Það er ekki skemmtilegt að byrja ferðalagið á því að týna eigum sínum eða láta stela frá sér!