Play kynnir nýjan áfangastað í Bandaríkjunum

Birgir Jónsson forstjóri Play segir mikla spurn eftir flugi til …
Birgir Jónsson forstjóri Play segir mikla spurn eftir flugi til Bandaríkjanna. Ljósmynd/Play

Flugfélagið Play mun hefja flug til Dulles-flugvallar í Virginíuríki í Bandaríkjunum í apríl á næsta ári. Í vetur mun flugfélagið einnig bæta við sig fjórum nýjum vélum og verða alls með tíu vélar næsta vor. Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir fyrirhugað að fjöldi áfangastaða muni bætast við leiðakerfi félagsins á næstu mánuðum.

„Baltimore flugið hefur gengið svo vel. Það hefur verið gríðarleg spurn eftir þessu Bandaríkjaflugi og því vildum við styrkja okkur á þeim markaði,“ segir Birgir í samtali við mbl.is. Play hóf flug til Baltimore-Washington alþjóðaflugvallarins sem er austan við Washington D.C. nær Baltimore. Dulles-alþjóðaflugvöllur er hins vegar vestan megin við höfuðborgina og í um þrjátíu mínútna akstursfjarlægð frá borginni. 

Alþjþóðaflugvöllurinn Dulles í Virginíuríki.
Alþjþóðaflugvöllurinn Dulles í Virginíuríki. AFP

„Lang stærsti hlutinn af þessu eru tengingar við Evrópu, en þar fyrir utan hafa Íslendingar tekið vel í þetta svæði. Maður hefur einhverja hugmynd um hvernig Washington er eftir að hafa horft á kvikmyndir og þætti, Hvíta húsið og þetta. En þetta er alveg frábær borg, frábær matarmenning og menning almennt. Á sumrin er svo frábært veður þarna, Spánarveður,“ segir Birgir. 

Þinghúsið í Washington.
Þinghúsið í Washington. mbl.is/Guðrún Selma

Hellingur af áfangastöðum í kortunum

Á snærum sínum hefur Play haft alls sex vélar en í vetur stendur til að bæta fjórum vélum við flotann. Frá og með næsta vori verða því vélarnar alls tíu. „Þannig við eigum eftir að tilkynna um alveg fullt af áfangastöðum á næstu vikum og mánuðum sem við byrjum að fljúga til næsta vor,“ segir Birgir. 

Hann segir haustið líta alveg svakalega vel út og að staðan sé allt önnur en hún var síðasta haust. 

„Það breytist aðeins yfir veturinn, færri ferðamenn koma til Íslands yfir veturinn og þá leggjum við meiri áherslu á tengiflug. Íslendingar sækja svo alveg svakalega í sólina núna með haustinu. Þannig við erum farin að sjá það aftur að það er mikil spurn eftir ferðum til staða eins og Tenerife og Alicante,“ segir Birgir. 

90% sætanýting til New York Stewart

Félagið flýgur einnig til borganna Madríd og Barcelona á Spáni og segir Birgir að ákvörðun hafi verið tekin um að halda áfram að fljúga þangað yfir veturinn. Á síðasta ári hættu þau að fljúga til Barcelona í október en nú verður sólarstemning í allan vetur. 

„Við erum líka að sjá að New York Stewart flugvöllurinn hefur slegið í gegn. Það var nú mikið gert grín að okkur fyrir að fljúga þangað, en það er búið að vera 90% sætanýting í þeim flugferðum,“ segir Birgir. Flugfélagið mun halda áfram að fljúga þangað í vetur, en þar í grennd eru fjögur stór skíðasvæði. 

Hann segir að allt líti út fyrir að jafnvægi sé að komast á markaðinn eftir heimsfaraldur og að fólk sé tilbúnara til að bóka sér stærri ferðir lengra fram í tímann.

Birgir sjálfur er búinn að vera á miklu flakki undanfarna mánuði og er mikið búinn að vera í Bandaríkjunum vegna vinnunnar.  „Ég er alltaf á ferðinni. Ég persónulega hef mikinn áhuga á Stewart-flugvelli. Hann er falin perla og fólk hefur verið að taka svo vel í þetta svæði. Það er svo gaman að koma með einhverjar nýjungar og bjóða fólki upp á að fara eitthvert annað en til London og Köben,“ segir Birgir. 

Komst ekki í sólina síðasta vetur

Birgir segir jólavertíðina líta vel út og að greinilegt sé að margir Íslendingar muni eyða jólunum í sólinni í ár. Sjálfur er hann ekki búinn að bóka jólaferð, en „myndi ekki hata að komast í einhverja sól“. 

Hann ætti þó sennilega að fara hafa hraðann á því ekki komst hann til Tenerife né Alicante í febrúar og mars á þessu ári því allt var uppbókað. „Það var bara ekki hægt. Og ekki fór ég að hoppa upp í vélina hjá samkeppninni. Þannig ég þurfti bara sitja heima náhvítur á meðan allir voru að koma heim kaffibrúnir. Það er ekki lúkk sem fer mér vel. Maður verður að vera smá tanaður. Það lá við að ég tæki sprey-tanið á þetta,“ segir Birgir.

Birgir þurfti að sitja næpuhvítur heima í vetur því öll …
Birgir þurfti að sitja næpuhvítur heima í vetur því öll sæti voru full til Tenerife og Alicante. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert