Dennis Rodman körfuboltakappi freistar þess nú að hjálpa Brittney Griner að komast aftur til Bandaríkjanna en hún var dæmd í níu ára fangelsi í Rússlandi fyrir smygl og vörslu fíkniefna.
Rodman ætlar til Rússlands en hann er sagður vera góður vinur Pútíns og ætlar að toga í alla þá strengi sem hann getur til þess að aðstoða Griner.
„Ég fékk leyfi til þess að fara til Rússlands til þess að hjálpa þessari stelpu,“ sagði Rodman í viðtali við NBC News. „Ég stefni á að fara í þessari viku.“
„Ég þekki Pútín of vel,“ bætti hann við, en Pútín og Rodman hittust fyrst árið 2014 og sagði Rodman Pútín vera afar svalan náunga.
Rodman hefur í gegnum tíðina tekið sér diplómatískt hlutverk síðustu árin og myndað vináttusambönd við leiðtoga sem eiga í stirðum samskiptum við Bandaríkin. Hann hefur til dæmis oft hitt Kim Jong-un og segir hann afar vinalegan mann. Þá aðstoðaði Rodman að leysa Kenneth Bae úr haldi Norður-Kóreu árið 2014.