Tim Johnson blaðamaður segir að það þyki ekki lengur töff að fara til Íslands. Grænland sé miklu svalari áfangastaður, nú þegar allir og amma þeirra hafa farið í kvartbuxunum sínum til Íslands.
Johnson, sem er verðlaunaður blaðamaður, skrifaði um Ísland og Grænland í The Daily Beast.
Í upphafi greinar lýsir Johnson því hvernig fyrir nokkrum árum hafi fólk verið hissa á Íslandsferðum. „Núna eru allir búnir að fara til Íslands. Allir. Eða, ef ekki allir, allavega fullt af fólki. Og margir fóru til Íslands í sumar,“ skrifar Johnson og hefur ekki rangt fyrir sér því aldrei hafa fleiri gistinætur verið skráðar á Íslandi í júlí frá því að mælingar hófust.
Hann segir alla ferðamennina troða sér í Bláa lónið og borga himinháar fjárhæðir fyrir leigubíl. „Frænka þín, þessi sem er alltaf í kvarbuxum? Ég get lofað þér, hún er einhverstaðar þarna núna í rútuferð,“ skrifar Johnson.
Hann segir samt að Ísland sé alveg næs áfangastaður, ef fólk hafi ekki farið þangað, ætti það að drífa sig. Það séu eldfjöll og hverir og margt skemmtilegt að sjá, það sé bara ekki lengur mjög töff að fara til landsins.
„Það hvarf allt þegar Peggy frænka steig út úr rútunni í kvartbuxunum,“ skrifar Johnson. Hann segir að ef fólk sé að leita að töff stað til að heimsækja, þá sé Grænland rétti áfangastaðurinn.