Guð veit að það er ekki ódýrt að djamma á Íslandi í dag. Hefur blaðamaður heyrt útundan sér að tvöfaldur drykkur geti kostað allt upp í 3.000 krónur á börum í Reykjavík um þessar mundir. Þá er sniðugt að bregða undir sig betri fætinum, næla sér í ódýrt flug til Evrópu og hella sig fullan á mun hagstæðara verði en hér heima.
Auðvitað fer þó kostnaðurinn við djammið eftir því hversu duglegur drykkjuhrútur þú ert.
Búdapest er án efa ein besta partíborg álfunnar. Þar kostar áfengið aðeins brotabrot af því sem það kostar hér heima, og svo eru þar bestu klúbbar sem sögur fara af svo Bankastræti Club og Auto blikna í samanburði.
Ber þar helst að nefna næturklúbbinn Instant-Fogas sem er staðsettur í gömlum yfirgefnum byggingum. Á klúbbnum eru sjö aðskildir klúbbar þar sem ómar mismunandi tónlist. Nóg er af börum og svæðum þar sem hægt er að spjalla saman.
Einnig má mæla með Szimpla Kert en það var fyrsti klúbburinn sem opnaði í yfirgefnum gömlum húsum í borginni.
Beint flug til og frá Búdapest kostar frá 60 þúsund krónum.
Varsjá er kannski höfuðborg Póllands, en Kraká er höfuðborg djammsins í Póllandi. Hvergi í Evrópu eru fleiri barir miðað við höfðatölu og í Kraká. Bjórinn kostar á bilinu 400 til 500 krónur sem er að minnsta kosti helmingi ódýrar en hér heima á skerinu.
Beint flug til og frá Kraká kostar frá 55 þúsund krónum.
Riga er algjör djammperla sé maður á höttunum eftir góðri danstónlist og ódýrum drykkjum. Bjórinn kostar um 450 krónur. Gamli bærinn er sérlega skemmtilegur vettvangur, en þar er hægt að ferðast á milli bara með lítilli fyrirhöfn og drekka í sig menningu og ódýrt áfengi.
Flug með einni millilendingu til og frá Riga kostar frá 35 þúsund krónum.
Höfuðborg Tékklands er almennt þokkalega ódýr borg og kostar stór bjór almennt undir 400 krónum. Líkt og í fleiri borgum þar stundum að borga sig inn á klúbbana þar. Einn sá vinsælasti er M1 Lounge Bar & Club, en þar kostar miðinn tæpar þrjú þúsund krónur. Vel er hægt að komast hjá því að fara á bari þar sem maður þarf að borga sig inn þó, enda nóg af börum í miðborginni.
Beint flug til og frá Prag kostar frá 51 þúsund krónum með Play.
Djammið í Berlín er goðsagnakennt, en Berlín er ekki ódýrasta borg í heimi. München er það reyndar ekki heldur, en þar er djammið aðeins ódýrara en í höfuðborginni. Í miðborginni er að finna svokallaðan partíbanana (þ. Feierbanane), en það er svæði sem er í laginu eins og banani og þar eru flestir barir og næturklúbbar borgarinnar. Bjórinn kostar á bilinu 400 til 700 krónur og allir eru glaðir.
Beint flug til og frá München kostar frá 60 þúsund krónum.
Í Búkarest í Rúmeníu kostar stór bjór um það bil 250 krónur íslenskar. Það ætti því að vera nógu gott tilefni til að bóka sér flug þangað. Í miðborginni er að finna eðaldjammsvæði, um það bil tíu götur þar sem aðeins er að finna bari, skemmtistaði og næturklúbbi.
Flug með einni millilendingu til Búkarest kostar frá 76 þúsund krónum.