Framtíðin er hótel í geimnum

Sir Richard Branson.
Sir Richard Branson. AFP

Viðskiptamaðurinn Richard Branson stofnaði Virgin-flugfélagið fyrir 38 árum síðan. Branson flýgur enn hátt og segir ferðir út í geim það sem koma skal í ferðamennsku. Þegar kemur að hefðbundnari ferðalögum eru ferðalög á framandi slóðir honum hugleikin. 

Branson fór út geim í fyrra en hann stofnaði fyrirtækið Virgin Galactic sem býður upp á ferðir út í geim. Hann segir í viðtali við ferðatímaritið Condé Nast Traveller að það sé langur biðlisti í slíkar ferðir. Með því að lækka mengunina og fjölga geimskipum segir hann hægt að bjóða upp á enn fleiri ferðir.

Hann sér fyrir að mars og tunglið verði áfangastaðir og stór fyrirtæki á borð við Boeing taki þátt í að koma fólki út í geim. „Ég held að einn daginn verði hótel við tunglið,“ segir Branson. Hann sér fyrir sér að fólk ferðist í kringum tunglið á daginn og gisti á hótelinu á kvöldin. Hann er jafnvel með hugmyndir um fljótandi Virgin-hótel á tunglinu. 

Ævintýramaðurinn á fimm barnabörn og hann vonast til þess að þau ferðist um heiminn eins og hann hefur gert. Hann mælir sérstaklega með Afríku, Indlandi og Suður-Ameríku. Hann segir nauðsynlegt að vernda dýrategundir á borð við tígrisdýr. Hann vonast til þess að ferðalög opni augu barnabarna sinna og þau leggi málefninu lið. 

Richard Branson er víðförull ævintýramaður.
Richard Branson er víðförull ævintýramaður. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert