Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur notið lífsins í fjölskyldu fríi undanfarnar tvær vikur. Mikill glundroði hefur einkennt stjórnmálin í Bretlandi undanfarna vikuna en ekki sem hár bærst á höfði Johnsons fyrr en nú, en hann er sagður vera á leið heim úr sólinni.
Liz Truss sagði í gær af sér sem forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins eftir rúman mánuð í starfi og liggur fyrir að kjósa þarf nýjan leiðtoga flokksins og landsins. Johnson gegndi stöðunni á undan Truss en nafn hans hefur komið upp í umræðunni um nýjan leiðtoga.
Breskir miðlar greina frá því að Johnson hafi dvalið í Dóminíska lýðveldinu með eiginkonu sinni Carrie Johnson og börnum þeirra. Eru þau sögð hafa dvalið á Casa De Campo sem er nokkuð vandaður og dýr dvalarstaður í Dóminíska lýðveldinu. Innan Casa De Campo er að finna bestu og dýrustu hótelin á eyunni.
Mirror hefur eftir breskum ferðalöngum á eyjunni að Johnson-hjónin hafi virst afslöppuð þegar til þeirra sást í vikunni.
Þetta er ekki fyrsta fjölskyldufríið sem Johnson-fjölskyldan fer í í haust, en þau hjónin skelltu sér einmitt til Grikklands um miðjan ágúst.