Orð Ásgeirs Jónssonar seðlabanka hafa áhrif, ekki bara í efnahagslífinu heldur líka á samfélagsmiðlum. Upp hefur sprottið Facebook-hópurinn „Tíðar tásumyndir frá Tene“ þar sem félagar keppast við að birta myndir af sér á sólareyjunni Tenerife.
Hópurinn var stofnaður skömmu eftir kynningarfund peningastefnunefndar hinn 5. október síðastliðinn þar sem seðlabankastjóri ræddi um kröftuga einkaneyslu á fyrri hluta ársins. Spurður hvaða merki hann greindi um það, sagði hann á léttum nótum: „Það voru allir að taka myndir af tánum á sér á Tene eða eitthvað álíka í sólbaði.“
Í hópnum eru nú um 300 manns og í hópnum hafa verið birtar rúmlega 80 myndir, sem gerir um rúmlega 80 tásur á Tene, en í öllum tilvikum eru tíu tær á myndunum og stundum fleiri.
Ferðir Íslendinga til Tenerfie hafa sannarlega verið tíðar á árinu en Túristi.is greindi einmitt frá því í byrjun október að frá upphafi árs til loka ágústmánaðar hafi rúmlega 41 þúsund farþegar farið frá Íslandi til Tenerife.