„Fólk þarf ekki að opna veskið í ferðinni“

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrvals Útsýnar.
Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrvals Útsýnar.

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrvals-Útsýnar segir ferðalög Íslendinga hafa breyst töluvert eftir kórónuveirufaraldurinn. Fólk bóki ferðir með styttri fyrirvara en áður og kjósi frekar að panta í gegnum ferðaskrifstofur því margir hafi tapað miklum peningum sem ekki var hægt að fá endurgreidda í heimsfaraldrinum. 

Þórunn segir að margt hafi breyst eftir heimsfaraldurinn. Í febrúar gerði hún tilraun með nýjan áfangastað sem heitir Punta Cana og er í Dóminíska lýðveldinu. Þórunn hafði heyrt af þessum stað þegar hún var forstjóri í Bandaríkjunum í nokkur ár en Punta Cana var vinsæll hjá amerískum ferðamönnum.

„Ameríkanar fara mikið á þetta svæði og þegar mínir samstarfsaðilar bentu okkur á þennan valkost ákváðum við að slá til. Ferðin í febrúar gekk svo vel að nú ætlum við að fara í aðra ferð sem verður 25. nóvember og koma heim 4. desember. Það sem heillaði mig líka við þennan stað er að á öllum hótelunum er allt innifalið sem þýðir það að fólk þarf ekki að opna veskið í ferðinni. Það er enginn óvæntur kostnaður,“ segir Þórunn.

Þórunn segir að náttúrufegurðin á Punta Cana sé engu lík og að veðurfar sé stöðugt en hitinn er alltaf um 27 gráður. 

„Í mínum huga er Punta Cana staðurinn fyrir fólk sem vill núllstilla sig og hvíla sig. Það er svo dásamlega fallegt þarna og mikil „trópíkal“ stemning. Það er notalegt að koma þarna en um leið og lent er tekur heimilisleg stemning við farþegum. Fólkið á þessum stað er einstakt og þjónustulundin mikil. Þarna er mikil afþreying fyrir þá sem vilja það. Fólk getur blandað saman afslöppun í sól og spilað golf í leiðinni. Ef hjón fara saman í þessa ferð og bara annar aðilinn spilar golf þá er hótelið mitt á milli golfvallarins og strandarinnar,“ segir hún. 

En ef fólk spilar ekki golf og vill læra það. Verður golfkennsla í ferðinni?

„Fólk getur ekki farið á golfvöllinn nema spila golf og fólk þarf að vera með forgjöf. Við erum að skoða þetta með golfkennsluna. Ef það eru nægilega margir sem skrá sig þá getur verið að við verðum með golfkennslu,“ segir hún. 

Ljósmynd/Helga Thorberg

Hvernig var rútínan þín á Punta Cana þegar þú varst þar í febrúar?

„Þá vaknaði ég eldsnemma á morgnana og byrjaði snemma að spila golf. Þegar sá hluti var búinn fór ég á ströndina eða labbaði meðfram ströndinni og skoðaði mannlífið. Svo var mikil afþreying á hótelinu á kvöldin. Það var gaman að fara út að borða á hótelinu og hlusta á lifandi tónlist. Þetta var svo áreynslulaust og notalegt,“ segir hún. 

Eftir heimsfaraldurinn hefur ferðamunstur fólks breyst. Þórunn segir að fólk bóki sig síður langt fram í tímann. 

„Fólk er mikið í því að bóka sig með stuttum fyrirvara, bæði í sólarferðir og borgarferðir. Svo er mikið um árshátíðarferðir hjá fyrirtækjum. Við fáum mikið af fyrirspurnum varðandi slíkar ferðir og það sem hefur breyst er að fólk er að ferðast á öðrum tímum en áður. Fyrir veiruna var allt í föstum skorðum varðandi tímasetningar á ferðum en í dag er þetta öðruvísi. Fólk er að fara í árshátíðarferðir í janúar og í nóvember svo dæmi sé tekið. Fólk er meira í því að fara út fyrir boxið og vill fara á aðra staði. Ef allir eru að hamast við að fara á sömu dögum verður meiri eftirspurn og verðið hækkar. Þegar ferðirnar dreifast er hægt að fá ferðir á betri kjörum,“ segir hún. 

Ljósmynd/Helga Thorberg

Hvað um jólin. Ætlar þú að vera erlendis þá?

„Ég er ekki búin að ákveða það. Oftast hef ég farið yfir áramótin en mér finnst gott að komast í sól og birtu á þessum árstíma. Annars ráðast mínar ferðir af vinnunni. Ég læt viðskiptavinina ganga fyrir. Ég er ekki að bóka mig í ferðir ef það er allt að verða uppselt,“ segir hún og hlær.

Ljósmynd/Helga Thorberg
Ljósmynd/Helga Thorberg
Ljósmynd/Helga Thorberg
Ljósmynd/Helga Thorberg
mbl.is/Marta María
Ljósmynd/Helga Thorberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka