Icelandair kynnir tvo nýja áfangastaði

Icelandair mun fljúga til Prag næsta sumar.
Icelandair mun fljúga til Prag næsta sumar. Ljósmynd/Wikipedia.org/A. Savin

Icelandair kynnir tvo nýja áfangastaði í millilandaflugi sumarið 2023, Prag og Barcelona. Flogið verður í morgunflugi, sem býður upp á góðar tengingar við flug félagsins til Norður-Ameríku. Þetta er í fyrsta sinn sem félagið flýgur áætlunarflug til Prag.

Flogið verður fjórum sinnum í viku til Prag, þriðjudag, fimmtudag, föstudag og sunnudag. Fyrsta flug er 1. júní 2023 og flogið verður út október 2023. Prag er sögufræg borg og sívinsæl fyrir borgarferðir og bætist því við sem áhugaverður áfangastaður í sterkt leiðarkerfi Icelandair bæði fyrir tengifarþega og Íslendinga.

Boðið verður upp á tvær til þrjár ferðir í viku til Barcelona frá 1. apríl 2023 og út október. Icelandair hefur áður flogið til Barcelona í síðdegisflugi en með morgunflugi opnast nýir möguleikar á tengiflugi milli Norður-Ameríku og Barcelona. Barcelona býður upp á fjölbreytt ferðalög og er vinsæll áfangastaður hvað viðkemur mat, menningu og arkitektúr en jafnframt með sólarströnd í miðri borg.

„Það er spennandi að bæta tveimur frábærum borgum við okkar öflugu sumaráætlun. Prag og Barcelona hafa upp á margt að bjóða meðal annars hvað varðar menningu, listir, sögu og matargerð. Við sjáum mikil tækifæri í að bjóða morgunflug til borganna tveggja sem tengist vel inn í Norður-Ameríkuflugið okkar. Sem stendur eru fáar flugtengingar frá Prag til Bandaríkjanna og Kanada og munum við því stórbæta tengingar á milli þessara markaða auk þess að bjóða upp á þægilega brottfarartíma milli Íslands og Prag,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka