Icelandair kynnir í dag Detroit í Bandaríkjunum sem nýjan áfangastað. Flogið verður fjórum sinnum í viku frá 18. maí 2023 og út október.
Flogið er á mánudögum, þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum. Flugtími er um sex klukkustundir. Detroit er oft kölluð bílaborgin en hún er einnig fæðingarstaður hinnar goðsagnakenndu Motown tónlistar. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í borginni undanfarin ár og er hún þekkt fyrir tónlist, list, hönnun og matargerð.
Borgin er í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna og var valin af Time Magazine sem ein af borgum ársins 2022.
„Við erum mjög spennt fyrir því að bæta Detroit við okkar öfluga leiðakerfi. Borgin er áhugaverður áfangastaður og þaðan eru einnig öflugar tengingar til annarra borga í Bandaríkjunum. Þá skapast mjög góðar tengingar fyrir íbúa Detroit og nærumhverfis við Ísland og áfram til áfangastaða Icelandair í Evrópu. Undanfarin ár höfum við lagt áherslu á að bæta við nýjum áfangastöðum vestanhafs sem hafa litlar tengingar við Evrópu fyrir. Þannig getum við bætt mjög þjónustu frá þessum svæðum til Evrópu og nýtt þau tækifæri sem liggja í öflugu leiðakerfi okkar og stuttum tengitíma á Keflavíkurflugvelli,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra í tilkynningu.