Byltingarkennd tækni í Leifsstöð á næstu árum

Auður Ýr Sveinsdóttir forstöðumaður flugverndar hjá Isavia gerir ráð fyrir …
Auður Ýr Sveinsdóttir forstöðumaður flugverndar hjá Isavia gerir ráð fyrir að ferlið muni taka tvö til þrjú ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Farþegar sem fara um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík mega eiga von á því að byltingarkennd myndgreiningartækni verði innleidd í öryggisleitinni á næstu tveimur til þremur árum. Auður Ýr Sveinsdóttir, forstöðumaður flugverndar hjá Isavia, segir ferlið fara fljótlega af stað og á von á því að farið verið í útboð á næstunni.

Eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku hefur tæknin verið í þróun síðustu árin og er verið að prófa hana á stórum flugvöllum á borð við Heathrow á Bretlandi. Með tækninni er tekin sneiðmynd af handfarangri farþega og þannig hægt að skima farangur betur fyrir óæskilegum og hættulegum hlutum sem ekki er heimilt að taka með inn á flugvöll eða í loftför.

Af því leiðir að farþegar þurfa ekki að taka raftæki sín upp úr handfarangri og vökvi, þar á meðal snyrtivörur, þarf ekki lengur að vera í undir 100 ml flöskum.

Eykur öryggi fyrst og fremst

„Við hefjum innkaupaferlið bráðlega og erum núna að kynna okkur tæknina og kanna hverjar þarfir okkar eru,“ segir Auður.

Nú þegar hefur sneiðmyndabúnaður verið innleiddur í nýrri flugstöðvarbyggingu á alþjóðaflugvellinum í Helsinki í Finnlandi og einnig á Schiphol í Amsterdam.

„Númer 1, 2 og 3 er verið að auka öryggi farþega og starfsfólks á flugvöllum og í loftförum. Hliðarafurðin af því er að það verður þægilegra að ferðast fyrir farþega,“ segir Auður. Það sem eykur öryggið er að búnaðurinn getur efnagreint það sem er í farangrinum, t.a.m. vökva. „Þá er magn vökvans hætt að skipta máli, fólk getur verið með vatn eða kók eða hvað sem það vill, svo fremi að það sé ekki hættulegt,“ segir Auður.

Ný tækni mun hafa í för með sér að farþegar …
Ný tækni mun hafa í för með sér að farþegar verði fljótari í gegnum öryggisleitina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dýr tækni

Hún segir þetta vera stóra fjárfestingu fyrir Isavia en ekki sé ljóst hver heildarkostnaðurinn verði. „Ég geri ráð fyrir að innkaupaferlið taki að minnsta kosti ár. Þegar maður setur svo inn pöntun getur bæst við annað ár í framleiðslu og uppsetningu. Þá þarf að innleiða búnaðinn, þjálfa starfsfólk og annað,“ segir Auður sem í heildina gerir ráð fyrir tveimur til þremur árum í allt ferlið ef allt gengur upp.

Spurð hvort þetta muni stytta biðtímann í öryggisleitinni í Leifsstöð segir Auður að biðtíminn sé nú þegar aðeins um tíu mínútur að jafnaði. Vélarnar muni þó klárlega bæta öryggi og einfalda farþegum ferðalagið. „Það er von okkar að nýr búnaður muni bæta gegnumflæðið hjá okkur á Keflavíkurflugvelli ,“ segir Auður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert