Æ fleiri Íslendingar kjósa að viðra tærnar í sólinni á Tenerife þessa dagana í stað þess að þeysast vel dúðaðir um snæviþaktar götur Reykjavíkur.
Eyjan fagra býður upp á ótal möguleika fyrir ferðamenn og fjölda áfangastaða, en kvikmyndagerðarmaðurinn Pétur Sigurðsson varð strax heillaður af svörtum klettaströndum bæjarins Alcala, rétt fyrir norðan Adeje.
Alcale er talinn vera með fallegri strandbæjum á suðvesturhluta eyjunnar, en þar er hlýtt og sólríkt allt árið um kring. Staðurinn þykir tilvalinn fyrir þá sem eru í leit að sólríku veðri en kjósa rólegra andrúmsloft og vilja vera fjarri asanum sem gjarnan myndast á stærri dvalarstöðum eyjunnar.
Nýverið opnaði Pétur kaffihús og veitingastað í bænum, en staðurinn ber heitið B On The Rocks. Þar er boðið upp á létta rétti og smurbrauð á daginn, en þegar líður á kvöldið tekur frönsk matargerðarlist við á staðnum og töfrar kokkurinn fram dýrindis rétti í anda Frakklands fyrir gestina.
Nýverið var blásið til opnunarhófs á kaffihúsinu þar sem Íslendingarnir létu sig að sjálfsögðu ekki vanta, en af myndum að dæma var góð stemning á opnuninni og nóg um góðan mat og drykki.