„Heitasti áfangastaðurinn minn í sumar verður fæðingardeildin“

Heitasti áfangastaður Snorra Mássonar blaðamanns og Nadinar Guðrúnar Yaghi, samskiptastjóra …
Heitasti áfangastaður Snorra Mássonar blaðamanns og Nadinar Guðrúnar Yaghi, samskiptastjóra Play, verður fæðingardeildin í byrjun sumars.

Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri flugfélagsins Play, segist myndu skella sér með beinu flugi til Aþenu í Grikklandi ef hún væri ekki að fara eignast barn í byrjun sumars. Nadine á von á nú von á sínu öðru barni sem er væntanlegt í lok maí eða byrjun júní.

„Heitasti áfangastaðurinn minn í sumar verður fæðingardeildin en ég á von á barni í lok maí eða byrjun júní. Það er að sjálfsögðu mikið tilhlökkunarefni en orlofið í sumar verður sem sagt ekki hið hefðbundna sumarfrí,“ segir Nadine í viðtali við mbl.is. Nadine sér Grikkland í hyllingum og sér fyrir sér að hún myndi eyða nokkrum dögum í að skoða Aþenu áður en hún héldi á einhverja gríska eyju.

„Mér finnst frábært að nú sé hægt að taka beint flug til Grikklands og eins og ég sannfærð um að það verði virkilega vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga sumarið 2023,“ segir Nadine.

Myndin er tekin í Sitges sem er steinsnar frá Barcelona.
Myndin er tekin í Sitges sem er steinsnar frá Barcelona.

Nóg af Portúgal og Grikklandi á Instagram í sumar

Hún telur líka að Lissabon og Porto í Portúgal verði einnig vinsælir áfangastaðir en Play býður einmitt upp á beint flug þangað. Þannig verði Instagram sennilega fullt af myndum frá Grikklandi og Portúgal í sumar.

„Spánn verður líka virkilega heitur næsta sumar en ég held að það sé óhætt fyrir mig að segja að ekkert íslenskt flugfélagi hafi áður boðið upp á svo marga áfangastaði á Íberíuskaganum en við verðum með 8 áfangastaði þar í sumar. Porto og Lissabon í Portúgal og svo sex spænska áfangastaði; Madríd, Barcelona, Tenerife, Alicante, Malaga og Mallorca. Persónulega elska ég Spán og hef ferðast mikið um á Spáni. Ég var í skiptinámi í meistaranáminu í lögfræðinni í Madríd sem er uppáhaldsborgin mín í heiminum. Það er líka alltaf gaman að vera í Barcelona en ég var þar einmitt á dögunum í helgarferð með kærastanum. Það sem kom okkur mest á óvart er hvað það var heitt þarna í lok nóvember en það voru um 20 gráður. Veðrið er eins þar um þessar mundir þannig að Íslendingar sem vilja stinga af á dimmustu mánuðum ársins geta farið til Barcelona og spókað sig um á léttri skyrtu og jafnvel berleggja,“ segir Nadine.

Nadine mælir með Mohonk í New York-ríki.
Nadine mælir með Mohonk í New York-ríki.

Íslendingar sæki í sólina

Það er ekki bara á vetrin sem Íslendingar sækja í sólina. Nadine segir Íslendinga alltaf leita í sólina. „Við vitum aldrei hvernig veðrið er hérna á sumrin og þá er best að plana fríið einhvers staðar þar sem pottþétt er gott veður,“ segir Nadine.

Play tilkynnti um fjóra nýja áfangastaði í dag, þrjá í Danmörku og einn í Þýskalandi. „Ég er mjög spennt fyrir skandinavísku viðbótinni okkar. Mér finnst eitthvað rosalega heillandi við að fara í danska sveit, sérstaklega með börnin. Play er einnig að fljúga til Stokkhólms og Gautaborgar næsta sumar en þeir sem þekkja þær borgir vita vel hvað þær hafa upp á mikið að bjóða, sérstaklega á sumrin,“ segir Nadine.

Nadine fór til Tenerife með syni sínum á síðasta ári.
Nadine fór til Tenerife með syni sínum á síðasta ári.

Spurð hvort það séu einhverjar leyndar perlur í grennd við áfangastaði Play segir Nadine að New York-ríki falli oft í skuggann af heimsins vinsælustu stórborg. Flugvöllurinn sem Play flýgur til er í Hudson-dalnum sem sé algjör náttúruperla með hagkvæmari möguleikum á gistingu.

„Svo sakar ekki að flugvöllurinn er rétt hjá risastóru Lególandi og Woodbury Commons sem er stærsta outlet-verslunarmiðstöð Bandaríkjanna. Það er gjörsamlega geggjað að versla þar. Ég fór þangað síðasta sumar og naut þess að vera „upstate New York“ í nokkra daga og fara svo til Manhattan í 2 daga. Fullkomið frí,“ segir Nadine.

Í vinkonuferð í Kaupmannahöfn.
Í vinkonuferð í Kaupmannahöfn.

Mælir með Tenerife fyrir barnafjölskyldur

Þó fæðingardeildin verði fyrsti viðkomustaður Nadinar í byrjun sumars þá sér hún fyrir sér að fara til Þýskalands í lok sumars. „Við fjölskyldan ætlum líka að fara til Þýskalands í lok sumars, til Hamborgar, þar sem kærasti minn er að fara í starfsnám í nokkrar vikur. Ég hef aldrei komið til Hamborgar og elska að koma á nýja staði þannig ég er mjög spennt,“ segir Nadine.

Spurð hvaða áfangastaður sé bestur fyrir barnafjölskyldur segir Nadine Tenerife koma sterklega til greina. En líka Mallorca, Alicante og Gran Canaria. Það sé líka hægt að blanda saman sólar- og borgarferðum og fara til Barcelona, Málaga og Lissabon.

Borgarferð til Berlínar er alltaf næs.
Borgarferð til Berlínar er alltaf næs.

„Ég fór til Tenerife á síðasta ári með stráknum mínum sem er fjögurra ára og vinkonu sem er með einn 3 ára og við elskuðum það. Fyrir fólk sem nennir engu brasi en vill komast i sól og næsheit þá er vika á góðu hóteli á Tenerife algjörlega málið.

Þeir sem nenna hins vegar ekki í alla þessa sólarvörn ættu að skoða Danmörku, krúttlegar strendur Álaborgar, Tívolí í Köben eða Legoland í Billund og svo er annað enn stærra Legoland nánast við hliðina á flugvellinum okkar í New York!“

Í Barcelona.
Í Barcelona.

Mallorca komið mest á óvart

Fyrir þau sem ekki eiga börn eða vilja komast í frí án barnanna mælir Nadine með New York, Berlín, París, Bologna og Madríd. „Ég gæti unað mér vel í barnlausu fríi að ráfa á milli hámenningarlegra viðburða, borða framandi mat, skoða heimsfræg listaverk og drekka fallega kokkteila. Allt sem 4 að verða 5 ára sonur minn myndi ekki taka í mál að gera,“ segir Nadine.

Spurð hvort það sé einhver sólaráfangastaður sem komið hefur henni á óvart segir hún Mallorca. „Ég hélt að Mallorca væri bara bresk túristanýlenda með froðudiskótek en svo er þetta undurfögur eyja með gullfallegar klettavíkur og hvítar strendur, merkilega sögu og fullt af menningu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert