Play bætir við áfangastað í Norður-Ameríku

Play bætir Torontó við leiðakerfi sitt.
Play bætir Torontó við leiðakerfi sitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugsætum til Hamilton, í grennd við borgina Torontó, í Kanada en áætlunarflug þangað hefst þann 22. júní. Flogið verður alla daga vikunnar á Hamilton-alþjóðaflugvöll. Boðið veður upp á frábærar tengingar við 15 áfangastaði Play í Evrópu.

Torontó er stærsta borg Kanada, en um klukkustundar akstur er frá Hamilton til borgarinnar, og mun þessi nýi áfangastaður stækka markaðssvæði Play í Norður-Ameríku.

Hamilton International flugvöllur er frekar lítill og þægilegur. Þá eru samgöngur frá flugvellinum til Torontó greiðar. Flugvöllurinn er ódýr sem mun gera það að verkum að Play getur boðið upp á lægstu fargjöldin á milli Torontó og Evrópu. Allt eru þetta atriði sem falla vel að stefnu Play sem gengur út á að bjóða upp á lág fargjöld, einfalda og þægilega þjónustu. 

Hátt í fjörutíu áfangastaðir í ár

Áfangastaðir Play árið 2022 voru 25 talsins en verða hátt í 40 árið 2023, bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Félagið mun nota tíu flugvélar í starfseminni árið 2023 og veita rúmlega 500 manns atvinnu á árinu.

„Ég hef beðið spenntur eftir því að við hefjum miðasölu á flugi til Kanada enda mikilvægur markaður fyrir okkur. Miðað við hvað hefur gengið vel á mörkuðum okkar í Norður-Ameríku er ég fullur tilhlökkunar fyrir þessum nýja áfangastað. Við förum inn á þennan markað með því hugarfari að efla ferðalög á milli landanna. Það er frábært að geta boðið enn fleirum upp á þann valkost að fljúga ódýrt yfir hafið. Þessi viðbót stækkar markaðssvæði Play talsvert en á svæðinu búa hátt í átta milljónir manns sem geta nú valið ódýran og góðan kost fyrir ferðalagið til fjölda áfangastaða í Evrópu eða Íslands,“ er haft eftir Birgi Jónssyni forstjóra Play í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert