Þrjú óvenjuleg sparnaðarráð fyrir ferðalanga

Ferðalangar geta sofið í bílnum til þess að spara.
Ferðalangar geta sofið í bílnum til þess að spara. Skjáskot/Instagram Emilyventures

Það getur verið dýrt að ferðast og þeir sem eru haldnir ferðabakteríunni vilja ferðast sem mest fyrir peninginn. Til þess að halda kostnaði niðri má hugsa út fyrir kassann en nokkrir ferðalangar hafa deilt ráðum um hvernig ferðast megi fyrir lítið.

1. Ekki ferðast á háanna tímum

Það er alltaf dýrast að ferðast um hásumar eða í vetrarfríi skólabarna. Best er að velja sér tíma sem aðrir þurfa að vera í vinnu eða skóla. Þá eru líka færri túristar á ferli og maður nýtur ferðalagsins betur. Kannski verður veðrið aðeins verra fyrir vikið en höfum í huga að það viðrar betur í næstum öllum öðrum löndum en Íslandi.

2. Taka með lítið tjald

Fyrir hugrakka má taka með sér lítið tjald í ferðalagið. Ferðalangurinn Steve Bramucci tók alltaf með sér lítið tjald hvert sem hann fór. Stundum tjaldaði hann á víðavangi en oft á tíðum fékk hann að tjalda hjá hostelum. Eitt sinn tjaldaði hann á þaki hostels í Jerúsalem og það kostaði litlar 500 krónur. Þar hafði hann aðgang að nettengingu, baðherbergjum, almenningsrými hostelsins og fékk að vakna við magnað útsýni yfir borgina. Óviðjafnanleg upplifun sem hann gleymir seint.

3. Sofa í bílnum

Það er hægt að hafa það huggulegt í bílnum sínum með því að nýta sér plássið í skottinu og fella niður aftursætin. Þá er komið gott pláss til þess að leggja sig. Íslendingar gætu með þessum hætti hæglega ferðast um landið með litlum tilkostnaði eða þá lagt land undir fót, flutt bílinn með Norrænu og farið í langferð um Evrópu. Allt til alls í bílnum.

„Hægt er að kaupa á Amazon þar til gert svefnstæði (sleeping platform) fyrir bíla. Ég gat þá ferðast langar vegalengdir án þess að hafa áhyggjur af því hvar ég svæfi. Ég setti gardínur fyrir rúðurnar og tók með nokkra kodda. Þetta var frábær og ódýr leið til að upplifa ný ævintýri,“ segir ferðalangurinn Emily.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka