Flugfélagið Play hefur ákveðið að framlengja áætlunarflug sitt til Liverpool í Englandi um mánuð. Þetta ákvað flugfélagið eftir að tilkynnt var að borgin myndi halda Eurovision-keppnina í ár vegna stríðsástandsins í Úkraínu.
Áætlanir Play gerðu ráð fyrir því að flogið yrði til Liverpool fram í miðjan apríl en þegar fréttirnar bárust var farið strax í samningaviðræður við stjórn Liverpool John Lennon-alþjóðaflugvallarins um að lengja flugtímabilið fram yfir Eurovision. Undanriðlar keppninnar fara fram þriðjudaginn 9. maí og fimmtudaginn 11. maí en úrslitin sjálf eru síðan laugardagskvöldið 13. maí. Áætlun Play nær fram að 15. maí.
„Þetta var aldrei spurning í okkar huga að framlengja fram yfir Eurovision. Áhuginn á Liverpool-flugi okkar í vetur hefur verið mikill, enda margir sem vilja komast á fótboltaleiki með Liverpool. Svo er einnig ekkert mál að skjótast frá Liverpool til Manchester-borgar til að fara á leiki en margir Manchester-menn hafa verið að nýta sér flug okkar til Liverpool,“ segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play.
„Áhuginn á Eurovision er auðvitað, eins og alltaf, mikill hér á Íslandi en það sem við finnum líka er að það er orðinn mikill áhugi á keppninni vestanhafs. Play býður auðvitað upp á tengingu til fjögurra áfangastaða í Bandaríkjunum, Washington, New York, Boston og Baltimore, og það eru margir sem vilja komast með Play frá þeim stöðum til Liverpool þegar þessi magnaða keppni verður haldin,” segir Nadine.
Flugfélagið Play verður þar að auki með afar metnaðarfulla sumaráætlun í ár, en félagið flýgur til hátt í fjörutíu áfangastaða árið 2023. Þrettán nýir áfangastaðir bætast við í ár en það eru borgirnar Toronto, Álaborg, Árósar, Billund, Düsseldorf, Varsjá, Stokkhólmur, Hamborg, Aþena og Porto. Þá hafa Madrid, Barcelona og Alicante bæst við sem heilsársáfangastaðir.