Ástralska leikkonan Rebel Wilson og skartgripahönnuðurinn Ramona Agruma eru trúlofaðar eftir rúmlega átta mánaða samband.
Wilson deildi gleðifregnunum á Instagram-reikningi sínum síðustu helgi. „Við sögðum JÁ!“ skrifaði leikkonan og birti myndir frá deginum, en Wilson og Agruma trúlofuðu sig með stæl í Disneylandi. Við færsluna þakkaði hún skartgriparisanum Tiffany & Co. fyrir hringinn og teyminu í Disneylandi fyrir ógleymanlegan dag.
Wilson og Agruma opinberuðu samband sitt síðastliðið sumar. Þær sáust þó fyrst í mars sama ár á Vanity Fair Óskarsveislunni, en þá töldu flestir þær bara vera vinkonur.
Þær eyddu sumrinu á ferðalagi um heiminn og komu víða við, þar á meðal á Íslandi. Þó svo parið hafi komið um hásumar og notið miðnætursólarinnar þótti þeim heldur kalt á klakanum, en þær skemmtu sér þó konunglega og fóru meðal annars í þyrluferð.