Flugfélagið Icelandair þarf að greiða viðskiptavini sínum 188 þúsund krónur vegna altjóns sem varð á ferðatöskunni í flugi frá Chicago í Bandaríkjunum til Íslands í lok maí á síðasta ári.
Þetta kemur fram í úrskurði Samgöngustofu sem birtur var í gær.
Samgöngustofa hækkaði þær bætur sem Icelandair hafði boðið viðskiptavininum fyrir töskuna, en skaðabæturnar dekka þó ekki kostnað við kaup á nýrri tösku af sömu gerð. Taskan er af gerðinni RIMOWA.
Viðskiptavinurinn fyllti út skýrslu við komuna í Keflavík þegar ljóst var að taskan væri ónýt. Við meðferð málsins lagði hann fram greiðslukvittun fyrir ferðatöskunni og upplýsingar um hvað taska af sömu gerð kostar í dag. Einnig tók hann fram að taskan hafi verið nýleg og keypt með það í huga að endast til margra ára.
Icelandair gekkst við því að umrædd ferðataska hafi eyðilagst í vörslu félagsins og bauð 142 þúsund krónur í skaðabætur. Viðskiptavinurinn hafnaði því boði og óskaði eftir að Samgöngustofa gæfi út bindandi ákvörðun varðandi ágreininginn.
Taskan kostaði 1.480 bandaríkjadali í október 2019, eða 185 þúsund krónur á gengi þess dags. Í mati sínu á skaðabótum miðar Icelandair við að 10% sé tekið af verðmæti töskunnar hvert ár.
Viðskiptavinurinn var ósáttur við það og sagði í bréfi sínu til Samgöngustofu í ágúst 2022 að taskan væri svo sterk að ekki ætti að sjá á henni við eðlilega meðferð. Það hafi verið raunin þá, ekki hafi séð á töskunni fyrir flugið frá Chicago.
„Það þarf virkilega illa meðferð og kæruleysi starfsmanna til að geta skemmt tösku úr járni eins og gerðist hjá starfsmönnum á vegum Icelandair,“ skrifar viðskiptavinurinn í bréfi sínu.
Segir hann enn fremur að ef eins taska væri pöntuð að utan í dag myndi hún kosta á milli 260 og 270 þúsund krónur með sköttum og flutningi. Eins taska fáist ekki hérlendis og því þurfi að panta hana frá útlöndum. Var hann ósáttur við að þurfa að leggja út 100 til 150 þúsund krónur til að festa kaup á nýrri töskur.
Samgöngustofa komst að þeirri niðurstöðu að Icelandair bæri ekki að miða skaðabætur út frá verði töskunnar í október 2019 þegar hún var keypt, heldur hversu mikið kostaði að kaupa slíka tösku á tjónsdegi, í maí 2022.
Á tjónsdegi kostaði taska af sömu gerð 1.903 bandaríkjadali sem gerir 244 þúsund krónur á gengi þess dags. Þannig ætti að taka 10% af því verði fyrir hvert ár og 5% fyrir hálft ár því taskan eyðilagðist í maí og taskan keypt í október. Bæri Icelandair því að greiða viðskiptavini sínum 188.329 krónur í skaðabætur fyrir töskuna.