Kuldamet slegið í nyrstu borg Kína

Ljósmynd/Pexels/Joyston Judah

Kuldamet var slegið á dögunum í nyrstu borg Kína, Nohe, þegar hitastig fór niður í mínus 53 gráður á selsíus. Þetta er mesti kuldi sem mælst hefur í borginni frá upphafi. 

Nohe er staðsett í norðausturhluta Heilongjiang-héraðs og er víða þekkt sem „Norðurpóll Kína“ enda einn af fáum stöðum þar í landi þar sem ríkir heimskautaloftslag. 

Fram kemur á vef CNN að hinn 22. janúar síðastliðinn, klukkan sjö að morgni, hafi hitastigið mælst mínus 53 gráður. Það sló fyrra met sitt, sem var mínus 52,3 gráður sem mældist árið 1969. 

Rauð veðurviðvörun vegna ísþoku

Veturnir í Mohe eru langir og byrja snemma í október og standa oft fram í maí. Þá geta þeir verið kaldir og ekki er óalgengt að meðalhiti fari niður fyrir frostmark. Árið 2018 voru gefnar út fyrstu rauðu veðurviðvaranirnar í borginni vegna kulda, en þá myndaðist svokölluð ísþoka í borginni. 

Engar viðvaranir hafa verið gefnar út í Mohe enn sem komið er, en veðurfræðingar telja að kuldakastið muni halda áfram í vikunni. Þá búast þeir einnig við því að ísþoka geti gert vart við sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert