Nýtt flugfélag á Íslandi

HeliAir verður með þyrlurekstur bæði á Ólafsfirði og í Reykjavík.
HeliAir verður með þyrlurekstur bæði á Ólafsfirði og í Reykjavík. Ljósmynd/Ágeir Helgi Þrastarson

Á dögunum fékk HeliAir Iceland ehf úthlutað nýju, íslensku flugrekstrarleyfi hjá Samgöngustofu.

Höfuðstöðvar HeliAir Iceland eru á Ólafsfirði og mun félagið halda úti þyrlurekstri bæði á Ólafsfirði og í Reykjavík.

Starfsfólk HeliAir Iceland hefur áratuga reynslu í þyrluþjónustu bæði á Íslandi og erlendis. Allir flugmenn félagsins eru íslenskir og leggur félagið mikla áherslu á að flugmenn þekki vel til íslenskra aðstæðna.

Félagið hefur fest kaup á glæsilegri þyrlu, Bell 407 GXP, sem bæði nýtist í farþegaflug og í verkflug, til dæmis við hífingar og lagningu á göngustígum á viðkvæmum svæðum. Þyrlan tekur allt að 6 farþega og er útbúin sérstökum gluggum sem henta einstaklega vel í útsýnisflugi.

„Við erum mjög spennt að fljúga með viðskiptavini okkar og sérstaklega spennt að byggja upp þyrluþjónustu á Norðurlandi. Þetta er í fyrsta skipti þar sem að þyrla verður til staðar á Norðurlandi árið um kring og við höfum fengið mjög góð viðbrögð, svo sem frá ferðaþjónustuaðilum sem selja ferðir á svæðinu,“ segir Jón Þór Þorleifsson framkvæmdastjóri HeliAir Iceland í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert