Hvíta húsið vill banna athæfi Play

Joe Biden Bandaríkjaforseti berst nú fyrir nýrri löggjöf sem á …
Joe Biden Bandaríkjaforseti berst nú fyrir nýrri löggjöf sem á meðal annars að tryggja að foreldrar þurfi ekki að greiða aukalega fyrir að sitja með börnum sínum um borð í flugvél. Samsett mynd

Rík­is­stjórn Joe Bidens Banda­ríkja­for­seta berst nú fyr­ir nýj­um lög­um til þess að út­rýma til­gangs­laus­um gjöld­um. Þar und­ir falla gjöld fyr­ir sætis­val um borð í flug­vél­um, en Biden hef­ur harðlega gagn­rýnt þau flug­fé­lög sem neyða for­eldra til þess að greiða auka­lega fyr­ir að sitja hjá börn­um sín­um.

Íslensku flug­fé­lög­in, Play og Icelanda­ir, eru með ólíka skil­mála þegar kem­ur að gjald­töku fyr­ir sætis­val. Í skil­mál­um Icelanda­ir seg­ir að sætis­val barna á aldr­in­um tveggja til ell­efu ára sé gjald­frjálst. Sömu sögu er ekki að segja í skil­mál­um Play.

Flug­fé­lagið Play seg­ist reyna að tryggja að börn sitji hjá for­eldr­um eða for­ráðamönn­um sín­um, það sé þó ekki hægt að tryggja það. Vilji for­eldr­ar vera ör­ugg­ir um að sitja hjá börn­um sín­um verði þeir að velja sæti í bók­un­ar­ferl­inu, og þar af leiðandi greiða fyr­ir það. 

Bæði flug­fé­lög fljúga til fjölda borga í Banda­ríkj­un­um. Icelanda­ir til Baltimore, Bost­on, Chicago, Den­ver, Detroit, Minn­ea­pol­is, New York, Or­lando, Port­land, Raleigh-Dur­ham, Seattle og Washingt­on D.C. Play til Baltimore, Bost­on, New York og Washingt­on D.C.

Eigi ekki að þurfa greiða auka­lega

Á mánu­dag gaf sam­göngu­málaráðuneyti Banda­ríkj­anna út nýtt mæla­borð þar sem hægt er að fylgj­ast með hvort flug­fé­lög hafi gefið út fjöl­skyldu­væna skil­mála sem tryggja það að for­eldr­ar þurfi ekki að greiða auka­lega fyr­ir að sitja hjá börn­um sín­um und­ir 13 ára aldri. 

Í til­kynn­ingu frá ráðuneyt­inu seg­ir að mæla­borðið aðstoði for­eldra við að kom­ast hjá því að bóka flug með fé­lög­um sem eru ekki með skýra skil­mála um hvort greiða þurfi auka­lega fyr­ir sætis­val barna. 

Af þeim tíu banda­rísku flug­fé­lög­um sem til­greind eru í mæla­borðinu eru þrjú sem segj­ast tryggja fjöl­skyldu­væna skil­mála. Það eru Alaska, American og Frontier. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert