Landsmenn hafa tekið sólinni síðustu daga fagnandi, enda löngu orðnir þreyttir á gráu skammdeginu. Hitastigið hefur hins vegar ekki glatt okkur jafn mikið og eflaust einhverjir komnir með nóg af gluggaveðri í bili.
Ef þig dreymir um að kíkja aðeins út fyrir landsteinana í von um aðeins hlýrri sólargeisla þá eru þetta áfangastaðirnir fyrir þig.
Róm
Apríl er frábær tími til að heimsækja Róm á Ítalíu, sérstaklega fyrir þá sem dreymir um borgarferð í mildu loftslagi. Meðalhiti í apríl er 19°C.
Santorini
Gríska eyjan Santorini hljómar alltaf vel, enda leynist þar mikil fegurð. Í apríl er veðrið afar notalegt og meðalhiti um 19°C.
Capri
Í aprílmánuði vaknar hin guðdómlega ítalska eyja Capri til lífsins. Þar er vel hægt að njóta sín við sjávarsíðuna undir ilmandi sítrónutrjám, en meðalhitinn í apríl er um 20°C.
Tenerife
Tenerife virðist slá í gegn hjá Íslendingum allan ársins hring, en áfangastaðurinn er ekki síður vinsæll á vorin. Í apríl er meðalhitinn um 23°C og því hvorki of heitt né of kalt.
Saint-Barthélemy
Þeir sem þrá aðeins meiri hita ættu að skoða Saint-Barthélemy sem er lítil eldfjallaeyja í Karíbahafinu. Þar er meðalhitinn í apríl um 29°C og því tilvalinn áfangastaður fyrir þá sem vilja slappa af í sólinni og fá smá lit.
Kos
Kos er falleg eyja sem tilheyrir Grikklandi, en hún er staðsett undan strönd Tyrklands. Sumarið á eyjunni hefst í aprílmánuði þar sem meðalhitinn fer upp í 21°C.